8. nóv 2023
OrkuveitanForvitnishorn Jarðhitasýningar Orku Náttúrunnar var opnað með pompi og prakt á dögunum en Forvitnishornið er fræðslurými fyrir börn á öllum aldri. Rýmið er hannað og teiknað af Ninnu Þórarinsdóttir og gerðu tæplega 200 manns sér ferð á Jarðhitasýninguna til að upplifa nýja Forvitnishornið og taka þátt í opnunarpartíinu.
Í Forvitnishorninu má kynnast orku móður jarðar og hvernig hún er nýtt á sjálfbæran hátt og hægt er að læra um ferðalag orkunnar frá kjarna jarðar til heimila fólks. Á Jarðhitasýningu Orku Náttúrunnar er hægt að kynnast því hvernig við notum jörðina sjálfa sem orkuver og framleiðum raforku og heitt vatn með jarðvarma.
Sævar Helgi Bragason kom við opnun Forvitnishornsins og spjallaði við börn og fullorðna um vísindi, boðið var upp á fjölskylduratleik um sýninguna og nafnasamkeppni á sagnafígúru Jarðhitasýningarinnar var haldin.
Vísindamiðlarar Jarðhitasýningarinnar fræddu einnig gesti og gangandi um hvernig jarðvarminn er nýttur til að framleiða heitt vatn og rafmagn og um hvernig Carbfix aðferðin virkar. Gestir gátu svo einnig slakað á í Agndofa rýminu og gætt sér á góðum veitingum.
Myndirnar eru frá opnunarpartíinu á dögunum.