5. jún 2023
OrkuveitanNýsköpunardagur Orkuveitu Reykjavíkur var haldinn á dögunum og þótti virkilega vel heppnaður. Yfirskrift dagsins var „Samtal um nýsköpun" og voru nýsköpunarverkefni tengd samstæðunni rædd á fróðlegan og skemmtilegan hátt.
Nýsköpunardagurinn hófst með því að Vala Hjörleifsdóttir, forstöðukona Nýsköpunar og framtíðarsýnar OR hélt opnunarræðu. Þær Kolbrún Ragna Ragnarsdóttir, nýsköpunarstjóri ON og Helga Kristín Jóhannsdóttir, viðskiptaþróunarstjóri Jarðhitagarðs ON stigu svo á stokk og ræddu um Tæknigarð og tækifæri fyrir nýsköpunarfyrirtæki tengd jarðvarma við Eirík Hjálmarsson, sjálfbærnisstjóri OR sem stýrði umræðum dagsins af stakri snilld.
Næst tók við erindið Tungumál fjölbreytileikans í mannauðsmálum með þeim Ellen Ýri Aðalsteinsdóttur, framkvæmdastýru Mannauðs og menningar OR og Ásdísi Eir Símonardóttur, sérfræðingi í mannauðsmálum. Þar á eftir var afar upplýsandi umræða Örnu Pálsdóttur, verkefnastjóra nýsköpunarverkefna hjá OR, Egils Marons Þorbergssonar, sérfræðings í nýsköpun og tækniþróun hjá Veitum og Hrefnu Kristmannsdóttur, prófessors emeritus við Háskólann á Akureyri um Blöndun vatns og sameinaða hitaveitu á höfuðborgarsvæðinu.
Síðast en ekki síst á dagskránni var Fráveitan og hringrásarhagkerfið þar sem Hlöðver Stefán Þorgeirsson, sérfræðingur fráveitu í nýsköpun og tækniþróun hjá Veitum, Sveinbjörn Ingi Grímsson, sérfræðingur í opinberri nýsköpun og viðskiptaþróun Ríkiskaupa, Reynir Sævarsson, fyrirliði nýsköpunar og þróunar hjá Eflu og Megan Elizabeth Wiegmann, umhverfisverkfræðingur hjá Veitum fóru yfir nýsköpunarverkefni í fráveitumálum.
Gestir nýsköpunardagsins voru svo boðnir velkomnir í partí í Elliðaárstöð þar sem Birna Bragadóttir forstöðukona tók vel á móti þeim. Þar lék Vísindasirkusinn Hringleikur listir sínar og hægt var að fá leiðsögn um ný opnað Heimili Veitna.
Öll voru sammála um að dagurinn hefði verið afskaplega fræðandi og skemmtilegur!