13. mar 2021
OrkuveitanTöluvert hefur safnast upp af ís við Elliðavatnsstíflu í þeirri kuldatíð sem ríkt hefur síðustu sólarhringa. Slík söfnun getur hindrað að nægilegt vatn renni yfir brún stíflunnar og í gegnum laxastiga niður í árnar en of lítið rennsli getur haft áhrif á lífríkið í Elliðaánum. Fylgst er með rennslinu með mælum sem vaktaðir eru á Veðurstofu Íslands. Þeir hafa gefið frá sér viðvörunarmerki síðastliðna daga og því voru botnlokar stíflunnar opnaðir til að auka vatnsmagnið sem fer í árnar.
Sé tekið mið af veðurspám næstu daga ætti hættan á íssöfnun við stífluna að vera liðin hjá eftir u.þ.b. sólarhring. Eftirlits- og hagaðilar hafa verið upplýstir um stöðuna og þær mótvægisaðgerðir sem gripið hefur verið til.
Myndin er af Elliðavatnsstíflunni, stífluhúsinu og laxastiganum sem um ræðir. Hana tók Guðmundur Ingólfsson.