ÍSTAK endurbyggir Bæjarhálsinn

21. maí 2021

Orkuveitan
Karl Andreassen framkvæmdarstjóri Ístaks og Bjarni Bjarnason forstjóri OR undirrita hér samninginn á 6.hæð Vesturhúss.
© Atli Már Hafsteinsson

Bjarni Bjarnason forstjóri OR og Karl Andreassen framkvæmdarstjóri Ístaks hafa undirritað verksamning um endurbætur á Vesturhúsi, hluta höfuðstöðva OR við Bæjarháls 1. Reiknað er með að framkvæmdir hefjist í næstu viku og er verktími áætlaður 22 mánuðir.

Það var síðla árs 2015 sem alvarlegar rakaskemmdir uppgötvuðust í Vesturhúsi og tveimur árum síðar var tekin ákvörðun um að loka húsinu og færa starfsemina annað. Ákveðið var að gefa sér góðan tíma í að skoða þá möguleika sem voru í stöðunni og fór fram ítarleg valkostagreining. Niðurstaðan var sú að fjarlægja gallaða útveggi hússins, rétta það af og endurbyggja veggina.

Samningurinn við Ístak markar því ákveðin tímamót í þessari sögu og er Karl Andreassen framkvæmdarstjóri Ístaks spenntur fyrir endurbyggingunni. „Verkefnið sjálft passar vel inn í verkefnaflóru Ístaks og við erum spennt fyrir samstarfinu við OR um að endurbæta Vesturhús, hluta af höfuðstöðvum fyrirtækisins.“

Þeir Bjarni og Karl skrifuðu undir samninginn á 6.hæðinni í Vesturhúsi og tekur Bjarni undir orð Karls.

„Við ákváðum strax í upphafi að ana ekki að neinu heldur vanda vel til verka og velta upp öllum mögulegum kostum í stöðunni. Þeim hluta verkefnisins er nú lokið og það er mikið gleðiefni að Ístak sé að hefja hér framkvæmdir. Við hlökkum afskaplega mikið til þess að flytja inn í nýtt hús sem við vonum að endurspegli betur þann anda og þá ásýnd sem við viljum að Orkuveita Reykjavíkur hafi í hugum fólks.“