Jöfnum álagið og hlöðum betur

3. jan 2022

Orkuveitan

Rafbílarannsókn OR

Orkuveita Reykjavíkur fer nú af stað með verkefni sem mun kanna hvernig hægt er að hvetja neytendur til þess að hlaða rafbíla betur og með því auka nýtni rafdreifikerfis Veitna.

Frí hleðslustöð í tvö ár

Rafbílarannsóknin Hlöðum betur mun standa yfir í rúm tvö ár.

Þátttakendur fá frí afnot af heimahleðslustöð á meðan verkefninu stendur en einnig mun verða settur upp snjallmælir hjá þátttakendum.

Í verkefninu verður breytileg verðskrá notuð í ýmsum útfærslum með það að markmiði að hvetja þátttakendur til þess að hlaða á þeim tímum sem henta kerfinu best. Með snjöllu hleðslustöðvunum sem þátttakendur fá í verkefninu ásamt snjallmælunum er hægt að fylgjast nákvæmlega með rafbílahleðslu og með því að hlaða betur hafa þátttakendur því tækifæri til þess að lækka orkureikninginn sinn.

Rafbílaeigendur hafa svo sannarlega tekið þátt í orkuskiptunum í samgöngum en nú munu þátttakendur leggja enn meira á vogarskálarnar. Ef einhverjar spurningar vakna varðandi verkefnið er hægt að hafa samband á netfangið hlodumbetur@or.is.

Tækifæri og áskoranir

Rafbílaaukningunni fylgja vissulega mörg tækifæri og ávinningurinn er ótvíræður; hraðari þróun Íslands að kolefnishlutleysi og nýting innlendra orkugjafa. En þessari þróun fylgja líka áskoranir og þá helst til aukið álag á raforkukerfið. Rannsóknir hafa sýnt að með stórum rafbílaflota stóreykst raforkunotkun almennra neytenda sem þýðir að við þurfum að styrkja dreifikerfi rafmagns og/eða stýra hleðslu rafbíla með einhverjum hætti.

Ef ekkert verður að gert þurfum við að ráðast í stórar innviðafjárfestingar til þess að styrkja dreifikerfi rafmagns með gríðarlegum kostnaði. En með því að hafa áhrif á hleðsluhegðun neytenda er hægt að jafna álagið innan sólarhringsins og minnka álagstoppa í kerfinu. Það er gert með svokallaðri álagsstýringu sem hægt er að útfæra á ýmsa vegu. Þannig er hægt að auka nýtni kerfisins og minnka fjárfestingarþörf í styrkingu kerfisins. Allar slíkar aðferðir hafa það þó að leiðarljósi að valda ekki óþægindum fyrir viðskiptavini. Þær hafa það sammerkt að notfæra sér þá staðreynd að bílar sitja almennt í bílastæðum yfir 90% sólarhringsins og þurfa einungis brot af þeim tíma til hleðslu.

Með því að taka þátt í verkefninu leggur þú orkuskiptunum enn frekar lið og hjálpar okkur í að móta snjallari framtíð!

Nánar um rannsóknina

Smelltu hér til að lesa meira um rannsóknina

Spurt og svarað

Smelltu hér til að sjá helst spurningar um verkefnið

Vinnsla og söfnun gagna

Okkur er umhugað um persónuvernd og öryggi í söfnun gagna í verkefninu

eu.jpg

Þetta verkefni hefur fengið styrkveitingu frá Horizon 2020, rannsóknar- og þróunarsjóð Evrópusambandins, undir styrknúmerinu 864242. Rannsóknarefni: LC-SC3-SCC-1-2018-2019-2020: Snjallar borgir og samfélög.

Ábyrgð efnisins sem fram kemur á þessari síðu og í verkefninu Hlöðum betur liggur alfarið hjá höfundum verkefnisins. Efnið þarf ekki endilega að endurspegla skoðanir Evrópusambandins og Framkvæmdastjórn ESB og eru þau ekki ábyrg fyrir notkun á upplýsingum sem koma þar fram.