13. sep 2020
OrkuveitanTvöfalt meira rafmagn er nú ónotað í landinu en þyrfti á alla einkabíla Íslendinga gengju þeir allir fyrir rafmagni. Rafbílaeigendur þurfa því ekki að óttast að ráðast þurfi í nýjar virkjanir til að útvega orku á bílinn. Þetta kom fram í viðtali Fanneyjar Birnu Jónsdóttur við Bjarna Bjarnason forstjóra Orkuveitu Reykjavíkur í Silfrinu á RÚV í dag.
Margt hefur breyst á síðustu misserum, stórkaupendur á rafmagni hafa lokað verksmiðjum sínum og almenn notkun er líka minni. Það sé því meiri framleiðslugeta rafmagns ónýtt en hefur verið lengi og meiri líkur á offramboði en skorti.
Það kom því Bjarna á óvart að sjá fréttir í tilefni ársfundar Samorku, samtaka orku- og veitufyrirtækja fyrr í vikunni, um að virkja þurfi á viðkvæmum svæðum til að ná markmiðum stjórnvalda um samdrátt í losun gróðurhúsalofts og að auka þurfi rafmagnsframleiðslu á Íslandi um 10% á næstu 10 árum í því skyni.
Í þættinum kom fram hjá Bjarna að þvert á móti sé staðan nú sú að hætta sé á offramboði á rafmagni. Óvissa sé í orkufrekum iðnaði sem meðal annars hafi birst hér á landi í því að á síðustu misserum hafi tvö kísilver hætt rekstri, álver Rio Tinto í Straumsvík hafi dregið úr framleiðslu um 15% og verulega hafi dregið úr rafmagnskaupum gagnavera.
Samtals nemi sá samdráttur sem þegar er orðinn um 7,5% af vinnslugetu raforku á Íslandi.
Það óselda rafmagn sem nú er fyrir hendi myndi því duga á tæplega 600 þúsund rafbíla. Það er rúmlega tvöfaldur einkabílafjöldi landsins. Rafbílar eru um 15 þúsund í dag.
Rafbílaeigendur á Íslandi þurfi því ekki að hafa stórar áhyggjur af því að rafmagnsskortur í landinu hamli ferðum þeirra.
Það eru óheppileg skilaboð til þeirra sem eiga rafbíl nú þegar eða eru að hugleiða að fá sér slíkt farartæki að ráðast þurfi í umdeilda virkjunarkosti til að afla rafmagns fyrir bílana, sagði Bjarni í þættinum. Það sé einfaldlega ekki raunin.
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem Bjarni heldur þessu fram. Hann hefur sjálfur ekið á rafmagnsbíl síðustu sex árin og sagði í viðtali við Morgunblaðið fyrir þremur árum, þegar svipaðar fullyrðingar voru á lofti um áhrif fjölgunar rafbíla á virkjunaráform, að rafmagnsskortur væri ekki fyrirsjáanlegur.