Metfjöldi á Orku- og vísindadegi Orkuveitunnar

24. sep 2024

Orkuveitan

Orku- og vísindadagur Orkuveitunnar og dótturfélaga var haldinn á dögunum. Það ríkir mikil eftirvænting fyrir þessum degi ár hvert, en í þetta sinn var slegið heimsóknarmet og komu um 700 háskólanemar í heimsókn til okkar í Elliðaárstöðina! Þar buðu öll félögin upp á skemmtun, fræðslu og veigar.

Rannsóknir og nýsköpun Orkuveitunnar buðum gestum upp á að sýrustigsmæla drykki, snúa orkuhjóli og skoða kristalla í víðsjá og sérfræðingarnir í fjármáladeildinni sáu um að koma sinni mikilvægu þekkingu áfram til nemendanna.

Starfsfólk Veitna sýndi meðal annars frá hermilíkönum, öxuldælu og smádreifistöð rafmagns. Orka náttúrunnar fræddi nemendurna um túrbínulíkan og hleðslubíll ON var á svæðinu. Elliðaárstöð bauð upp á lukkuhjól með frábærum vinningum og var með sýningartúrbínu á svæðinu.

Ljósleiðarinn bauð nemendum að kíkja í tengistöðvargám þar sem starfsfólk sagði þeim allt um internetið og mikilvægi háhraðatengingar Ljósleiðarans, og Carbfix sýndi nemendunum hvernig Carbfix aðferðinni er beitt til að breyta CO2 í stein og bindur þannig koldíoxíð varanlega í bergi á innan við tveimur árum.

Öll rými Elliðaárstöðvar voru vel nýtt þennan dag, starfsfólk okkar átti mörg góð samtöl við nemendurna, sem voru virkilega áhugasöm um starfsemina, og ekki skemmdi fyrir hvað veðrið lék við gestina.

Það er alltaf gaman að fá háskólanemendur í heimsókn til okkar og við þökkum þeim kærlega fyrir virkilega vel heppnaðan dag. Við vonumst til að sjá þau aftur í framtíðinni, í starfsviðtölum eða á göngum fyrirtækisins.

Hér að neðan má sjá stutt myndband frá deginum sem fangar vel þá frábæru stemningu sem ríkti, en við tókum viðtöl við nokkra nemendur og starfsfólk og fengum að heyra hvað þeim þótti um daginn og um Orkuveituna og dótturfélögin sem framtíðar vinnustað.

Orku- og vísindadagurinn 2024

Myndir frá deginum