Mikil orka á Vísindavöku

1. okt 2024

Orkuveitan

Vísindavaka 2024 var haldin í Laugardalshöll um helgina og var, venju samkvæmt, gríðarlega vel sótt af fólki á öllum aldri. Orkuveitan sat í stýrihóp fyrir Vísindavöku í ár og var með glæsilega viðveru á svæðinu með dótturfélögunum ON, Veitum og Carbfix, ásamt Elliðaárstöð og Jarðhitasýningunni sem heyra undir móðurfélagið.

Vísindavaka er árlegur vísindaviðburður og er ætlaður til að kynna vísindi, tækni og nýsköpun fyrir almenningi. Viðburðurinn er skipulagður af Rannís og þjónar sem vettvangur fyrir stofnanir, háskóla og fyrirtæki til að kynna verkefni sín og rannsóknir á skemmtilegan og áhugaverðan hátt. Á Vísindavöku eru yfirleitt gagnvirkar kynningar, lifandi sýnikennsla og tækifæri til að hitta vísindafólk og sérfræðinga á fjölbreyttum sviðum.

Frá Veitum sýndi hópur úr stafrænum umbreytingum gestum þrívíddarskanna af dælustöðinni í Faxaskjóli og hermilíkön af hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu. Hjá Carbfix fengu gestir m.a. að sulla með kolsýrt vatn og basalt og læra allt um það hvernig Carbfix aðferðinni er beitt til þess að binda CO2 varanlega. Orka náttúrunnar fræddi gestina um hleðslustöðvar og sýndi myndband frá starfsemi sinni. Hjá Jarðhitasýningunni gátu áhugasöm skoðað steina, grjót og útfellingar úr virkjununum okkar í smásjá, skoðað 3D myndband af varmaskiptistöð og dundað sér við að lita. Elliðaárstöð kenndi svo gestunum að virkja eigin orku til að framleiða rafmagn. Sýningartúrbínan vakti ekki síður lukku en þar gátu gestir séð hvernig vatnsafl er virkjað í vatnsaflsvirkjunum.

Orkuveitan bauð svo upp á vinsælan myndabás þar sem gestir á öllum aldri fengu að prufa hjálma og sýnileikavesti Veitna, Orku náttúrunnar og Carbfix og máta sig sem framtíðar starfsfólk okkar.

Sýningarsvæði Orkuveitunnar og dótturfélaga var virkilega vel sótt allan daginn og sat starfsfólk okkar fyrir svörum frá gríðarmörgum forvitnum gestum á öllum aldri.

Orkuveitan og dótturfélög leggja mikla áherslu á að taka virkan þátt í Vísindavöku til að deila þekkingu sinni og sérfræði um sjálfbæra orku, umhverfisvernd og nýjustu tækni. Okkur finnst mikilvægt að bjóða gestum upp á gagnvirk verkefni og sýningar sem grípa athygli gesta á öllum aldri og gefa þeim tækifæri til að læra um jarðvarmaorku, vatnsauðlindir og aðrar nýstárlegar lausnir fyrir grænni framtíð.

Við þökkum Rannís kærlega fyrir að skipuleggja þennan vel heppnaða viðburð og hlökkum til Vísindavöku að ári.