8. maí 2023
OrkuveitanVöktun á seiðabúskap og stærð hrygningarstofna í Árbæjarkvísl Elliðaánna á árinu 2022 leiðir í ljós mikla velgengni laxins eftir að fiskurinn endurheimti þessa gönguleið sem tálmuð var af Árbæjarlóni. Skýrsla Jóhannesar Sturlaugssonar líffræðings hjá rannsóknarfyrirtækinu Laxfiskum leiðir þetta í ljós.
Eftir að Árbæjarlón, sem var inntakslón Rafstöðvarinnar við Elliðaár, var tæmt varanlega, haustið 2020, réðist Orkuveita Reykjavíkur í ítarlegar rannsóknir á náttúrufari svæðisins til að meta áhrif þess að færa þetta búsvæði Árbæjarkvíslar til fyrra horfs. Fyrstu vísbendingar, sem fengust 2021 voru jákvæðar, einkum hvað varðar einkennisfisk Elliðaánna, laxinn. Nú er komin út skýrsla um rannsóknirnar í Árbæjarkvísl 2022 og þær niðurstöður vitna með afgerandi hætti um jákvæð áhrif þess fyrir laxinn í Elliðaánum að endurheimta gönguleið sína og búsvæði í Árbæjarkvísl.
Meðan á hrygningu laxins í Elliðaánum stóð 2022 þá voru á bilinu 192 til 212 laxar taldir í Árbæjarkvísl sem jafngildir því að um áttundi hver fiskur sem talið er að hafi gengið í Elliðaárnar í fyrra hafi þá verið í Árbæjarkvísl. Seiðavísitala haustið 2022 á kjörbúsvæðum í ánni í fyrrum lónstæði vitnaði um að laxaseiðabúskapur þar væri með afbrigðum góður. Rannsóknirnar 2022 sýndu að urriði nýtti sem fyrr Árbæjarkvísl líkt og aðra hluta vatnakerfis Elliðaánna en gáfu til kynna að honum hefði heldur fækkað þar frá fyrra ári.
Nú er að störfum sameiginlegur stýrihópur Orkuveitu Reykjavíkur og Reykjavíkurborgar með það verkefni að ganga frá formlegri niðurlagningaráætlun fyrir virkjunina í Elliðaánum. Hún þarf meðal annars að fela í sér að afstaða sé tekin til framtíðar þeirra mannvirkja sem þjónuðu raforkuvinnslunni úr ánum. OR ber ábyrgð á slíkri áætlun og með samstarfinu við Reykjavíkurborg á að tryggja að sú áætlun og skipulagsáætlanir borgarinnar um virkjanasvæðið verði samsvarandi.