OR samstæðan heldur vel utan um starfsfólk sitt og býður því upp á þjónustu fjölda sérfræðinga

2. jún 2023

Orkuveitan
Unnur Jónsdóttir, leiðtogi í öryggis- og heilsumálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
© Jóhanna Rakel

Orkuveita Reykjavíkur og dótturfélög vilja halda vel utan um fólkið sitt og bjóða meðal annars upp á stuðning fyrir starfsfólk í formi ráðgjafar eða meðferðar hjá ýmis konar sérfræðingum. „Frá því í nóvember á síðasta ári hefur starfsfólki OR samstæðunnar staðið til boða þrír tímar endurgjaldslaust á ári hjá þeim sérfræðingi sem óskað er eftir að hitta, svo sem sálfræðing, sjúkraþjálfara, fjármálaráðgjafa, kírópraktor, félagsráðgjafa, næringarfræðing eða lögfræðing“, segir Unnur Jónsdóttir, leiðtogi í öryggis- og heilsumálum hjá OR. „Fyrir um ári síðan vorum við að skoða hvernig við gætum bætt þjónustuna við starfsfólk og þá kom það til að fá Kara Connect í lið með okkur. Áður þurfti starfsfólk að óska eftir sértækum stuðningi hjá næsta stjórnanda eða mannauðsleiðtoga en nú getur starfsfólk sjálft bókað tíma í gegnum Karitas, Velferðartorg OR-samstæðunnar, án milligöngu þriðja aðila.”

Kara Connect er vélin á bak við Karitas þar sem starfsfólk hefur öruggt aðgengi að fjölbreyttu stuðningsneti sérfræðinga. Unnur segir starfsfólk samstæðunnar vera mjög ánægt með þessa þjónustu og að með þessum breytingum náist einnig til þess starfsfólks sem áður var síður líklegt til að bera sig eftir björginni. „Fólki finnst gott að geta sjálft séð um bókunina og við höfum fengið að heyra að starfsfólki OR-samstæðunnar finnist mjög vel við sig gert.“

Hægt er að bóka fjarfundi eða staðfundi með sérfræðingunum á Karitas, Velferðartorginu. Kerfið er auðvelt í notkun og uppfyllir allar kröfur sem kveðið er á um í lögum og reglugerðum um skráningu og varðveislu sjúkragagna sem og kröfu um persónuvernd. Unnur fær senda skýrslu mánaðarlega frá Kara Connect og getur þannig fylgst með hjá hvaða sérfræðingum starfsfólk er mest að bóka hjá. „Þannig sjáum við hvaða þjónusta það er sem starfsfólk sækir í og getum þá haldið áfram að veita þá þjónustu, tekið út það sem ekki er vinsælt eða aukið fjölbreytnina, allt eftir óskum eða tilmælum starfsfólks. Við sjáum aldrei hver nýtir sér þjónustuna, bara fjölda heimsókna og tíðni heimsókna hjá hverjum og einum sérfræðingi,” segir Unnur.