Orkuveitan styður við djúpborunarverkefnið KMT í Kröflu

3. okt 2024

Orkuveitan
Samningur um rekstur Krafla Magma Testbed undirritaður í Kröflustöð. Frá vinstri: Einar Mathiesen, framkvæmdastjóri Vinds og jarðvarma hjá Landsvirkjun, Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftlagsráðherra, Björn Þór Guðmundsson, framkvæmdastjóri KMT og Hera Grímsdóttir, framkvæmdastjóri Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið, Landsvirkjun, Orkuveitan og Krafla Magma Testbed (KMT) hafa undirritað samkomulag sem tryggir fjármögnun KMT næstu tvö árin. Samkomulagið markar ákveðin tímamót fyrir KMT þar sem Orkuveitan kemur inn sem styrktaraðili verkefnisins, auk þess sem áframhaldandi stuðningur frá stjórnvöldum og Landsvirkjun er tryggður.

Einstakt á heimsvísu

KMT er frumkvöðlaverkefni sem miðar að því að byggja upp alþjóðlega rannsóknarmiðstöð í eldfjalla- og orkurannsóknum í Kröflu sem verður einstök á heimsvísu. Verkefnið byggir á fyrstu djúpborunarholunni sem boruð var í Kröflu árið 2009 þar sem borað var óvænt í kviku á 2,1 km dýpi. Holan reyndist vera allt að tíu sinnum öflugri en meðal vinnsluholan í Kröflu og fljótlega var ljóst að mikil tækifæri fólust í þessari uppgötvun.

Breytir skilningi á hegðun eldfjalla

Markmið KMT er að þróa tækni til að nýta þessa gríðarlegu orkumöguleika með hönnun næstu kynslóðar jarðhitahola sem þola þann mikla hita og þrýsting sem liggur næst kvikuhólfum. Verkefnið gengur einnig út á að skapa einstaka aðstöðu til eldfjallarannsókna þar sem vísindamenn munu í fyrsta skipti fá beinan aðgang að kviku. Möguleikarnir sem í því felast geta breytt skilningi okkar á hegðun eldfjalla og er það von vísindamanna KMT að hægt verði að þróa aðferðir til að stórbæta eldgosaspár.

Straumhvörf í rannsóknum

KMT er samstarfsverkefni íslenskra og erlendra vísindamanna og verkfræðinga með höfuðstöðvar á Íslandi. Með þeim stuðningi sem tryggður var með samkomulaginu er KMT vel í stakk búið til að halda áfram því brautryðjendastarfi að þróa bættar aðferðir til jarðhitavinnslu og að byggja upp rannsóknarinnviði sem munu valda straumhvörfum í rannsóknum og skilningi okkar á eldfjöllum.

Orkunýtni jafn mikilvæg orkuöflun

Hera Grímsdóttir framkvæmdastýra Rannsókna nýsköpunar hjá Orkuveitunni skrifaði undir samkomulagið fyrir hönd fyrirtækisins.

„Djúpborun er eitt af því sem er hvað mest spennandi í jarðvarmageiranum í dag. Ef við náum að komast dýpra, nær kjarnanum getur það opnað á möguleika á að nýta auðlindina enn betur. Að styrkja KMT styður við vegferð Orkuveitunnar í djúpnýtingu, sem snýst um að nýta orku undir hinni hefðbundnu jarðhitaauðlind. Þetta getur bæði nýst á kaldari svæðum heimsins en ekki síst hjálpað okkur í þeirri vegferð okkar að nýta auðlindina hér á landi enn betur. Orkunýtni mun líkt og orkuöflun skipta gríðarlegu máli inn í framtíðina.“