Orkuveitan tók á móti ræðismönnum Íslands í Hellisheiðarvirkjun

7. okt 2024

Orkuveitan

Í síðastliðinni viku fór fram tveggja daga Ræðismannaráðstefna Íslands, þar sem um 140 kjörræðismenn Íslands frá 71 landi komu saman. Eitt helsta hlutverk kjörræðismanna er að vera til staðar fyrir Íslendinga erlendis þegar eitthvað bjátar á og eru þannig gríðarlega mikilvægur hlekkur borgaraþjónustu utanríkisþjónustu Íslands. Ráðstefnan fer fram á fimm ára fresti og í ár fékk Orkuveitan þann heiður að taka á móti hópnum í Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar.

Árni Hrannar Haraldsson, framkvæmdastjóri Orku náttúrunnar, dótturfélags Orkuveitunnar, kynnti starfsemi ON fyrir gestum og sagði þeim frá því hvernig fyrirtækið gætir hagsmuna auðlinda landsins okkar með sjálfbærni að leiðarljósi. Ólafur Teitur Guðnason, Head of Policy hjá Carbfix, sagði svo gestum frá starfsemi Carbfix, dótturfélags Orkuveitunnar og hvernig aðferð þeirra er beytt til að binda koltvísýring varanlega í bergi.

Að kynningum loknum fóru gestir í heimsókn að niðurdælingarholu og fengu frekari kynningu á því hvernig CO2 er dælt niður.

Við þökkum ræðismönnunum kærlega fyrir heimsóknina og fyrir tækifærið til að kynna þá fyrir starfsemi okkar. Það var okkur sönn ánægja að fá að taka á móti þessum stóra hópi sem er sannarlega mikilvægur fyrir okkur Íslendinga.