Orkuveitan tók þátt í COP 29 í Azerbaijan

20. nóv 2024

Orkuveitan

Orkuveitan sendi fulltrúa sína á 29. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (COP 29), sem haldin var í Baku, Azerbaijan, í síðustu viku. Það voru Arna Pálsdóttir, forstöðukona nýsköpunar auðlinda, og Snorri Hrafnkelsson, fjármálastjóri Orkuveitunnar, sem sóttu ráðstefnuna fyrir hönd fyrirtækisins.

COP-ráðstefnurnar eru lykilvettvangur þar sem ríki heimsins koma saman til að ræða aðgerðir gegn loftslagsbreytingum. Helsta áherslan í ár var á fjármögnun loftslagsaðgerða, sem er ein af stærstu áskorunum heimsbyggðarinnar í vegferðinni að kolefnishlutleysi.

Mikilvægi stöðugrar grænnar orku

Arna Pálsdóttir lagði áherslu á tæknilausnir og möguleika jarðvarma á heimsvísu:
„COP 29 í Azerbaijan var mikil upplifun. Helsta markmið samninga milli þjóða í ár er fjármögnun loftslagsaðgerða og dagskrá ráðstefnunnar var í samræmi við það. Sem verkfræðingur leitaði ég aðallega að kynningum sem sneru að tæknimálum. Áhugavert var að áhersla þeirra kynninga var ekki á tæknilausnir til að framleiða græna orku heldur á hvernig koma á grænni orku inn á raforkukerfi og til notenda. Þar skín í gegn sú staðreynd að þeir endurnýjanlegu orkugjafar sem eru í mestum uppgangi núna eru vind- og sólarorka, sem framleiða ekki samfellda orku. Það liggja því mikil tækifæri í uppbyggingu jarðvarma á heimsvísu sem getur veitt stöðugt og jafnt afl inn á raforkukerfi og jafnað út framleiðslu vind- og sólarorku.“

Arna benti einnig á að rafeldsneyti væri lykilþáttur í orkuskiptum á Íslandi:
„Ég lagði einnig áherslu á að tengjast fólki og fara á kynningar þar sem áherslan var á rafeldsneyti, þar sem uppbygging á framleiðslu rafeldsneytis á næstu árum verður lykilatriði til að klára orkuskipti á Íslandi.“

Samspil einkafjármögnunar og opinberra aðgerða

Snorri Hrafnkelsson skoðaði sérstaklega fjármálalegu hliðina á loftslagsaðgerðum og lagði áherslu á mikilvægi samstarfs milli opinberra aðila og einkageirans:
„Mikil áhersla var lögð á samspil public og private fjármögnunar í verkefnum. Ljóst var að stór hluti fjármagns þarf að koma úr einkageiranum til að hraður árangur náist í vegferðinni. Þar liggur þó áskorun þar sem mörg nýsköpunartækifæri eru ekki arðbær í upphafi og því reynist erfitt að fá einkafjármögnun inn í þau verkefni.“

Hann bætir við að stefnur og reglugerðir á alþjóðavísu séu flókið viðfangsefni:
„Það voru miklar umræður um stefnur, lög og reglur þar sem erfitt reynist fyrir einstök lönd eða svæði að taka upp reglur sem íþyngja samkeppni. Þetta þyngir allt ferlið þar sem erfitt er að setja og framfylgja ‘global’ reglum um þessi mál.“

Þátttaka Orkuveitunnar á COP 29 snerist ekki aðeins um að deila reynslu og þekkingu heldur einnig um að sækja sér þekkingu sem getur hjálpað fyrirtækinu að takast á við þær áskoranir sem fylgja loftslagsvánni. Þetta undirstrikar vilja fyrirtækisins til að vera í fararbroddi á sviði sjálfbærrar þróunar og nýsköpunar í orkumálum.