Plokkuðu 750 kíló af rusli úr Elliðaárdalnum

15. maí 2021

Orkuveitan
Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðaárstöðvar og Bjarni Bjarnason forstjóri OR kemba dalinn í leit af rusli.
© Atli Már Hafsteinsson

Vorhreinsun Orkuveitu Reykjavíkur fór fram í Elliðaárdalnum í vikunni þegar starfsfólk safnaðist saman og plokkaði rusl úr dalnum. Alls tóku 132 starfsmenn OR þátt í að fegra dalinn en allt rusl sem plokkað var úr dalnum var vigtað áður en það var flokkað og því síðan fargað. Alls voru 751,6 kg týnd úr dalnum á þremur dögum og munar nú um minna.

Hreinsunin í dalnum er liður í fyrsta viðburði Elliðaárstöðvar sem stefnt er á að opni í dalnum síðar árinu. Viðburðurinn ber heitið „Maðurinn í skóginum“ og er hluti af Hönnunarmars þetta árið. Boðið verður upp á skógargöngur í dalnum undir leiðsögn þar sem hönnuðurinn Sóley Þráinsdóttir og hönnunarteymið Stúdíó Flétta kynna hönnunarinnsetningar í skórgarrjóðrum í hólmanum um næstu helgi 22. og 23. maí.

Kynnir Elliðaárstöð fyrir fólki

Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðaárstöðvar segir ánægjulegt að nú sé búið að hreinsa dalinn og því hægt að taka á móti gestum um næstu helgi. Hún ætlar einmitt að taka á móti fólki með ilmandi Birki-tei og eplum í skógarrjóðri í hólmanum að göngu lokinni.

„Þar er ætlunin að spjalla við fólk og eiga samtal um dalinn okkar og segja frá starfsemi Elliðaárstöðvar. Framkvæmdir eru í fullum gangi og það styttist í að við getum byrjað að taka á móti fólki. Við erum líka afskaplega ánægð með að Elliðaárdalurinn sé nýr áfangastaður Hönnunarmars í borginni. Þetta er allt saman liður í því að tengja dalinn betur við borgina, fá fólk til að hreyfa sig, njóta útivistar og fræðast um veiturnar og þá merkilegu sögu sem liggur í dalnum,“ segir Birna Bragadóttir forstöðukona Elliðaárstöðvar.

Hægt er að kynna sér starfsemi Elliðaárstöðvar og sýninguna „Maðurinn í skóginum“ hér.