Stígagerðarmennirnir okkar

5. okt 2023

Orkuveitan

Þær Kristrún Ásta Arnfinnsdóttir , Ágústa Gunnarsdóttir og Elísabet Thea Gunnarsdóttir eru hluti af hópi sumarstarfsfólks sem vinnur við að halda göngustígum á Hengilssvæðinu í góðu standi. Þær eru titlaðar Stígagerðarmenn og hafa starfað við stígagerðina undanfarin sumur.

„Orkuveitan er með um 130 km af göngustígum á sínum svæðum og okkar starf felst í því að viðhalda þessum innviðum,“ segir Kristrún.

„Við leggjum upp með að stígarnir séu endingagóðir og þurfi sem minnst viðhald, breytum og bætum eftir því sem við á. Við notum til þess handverkfæri, hjólbörur og höfum fengið afnot af sexhjóli. Stöku sinnum er hægt að keyra upp að stígnum en alla jafna berum við verkfærin á verkstað.“

Þá bætir hún við að í mjög einfölduðu máli felist viðhaldið í því að drena stígana og koma í veg fyrir að vatn renni eftir þeim endilöngum og stýra þannig umferð gesta.

„Stöku sinnum leggjum við nýjan stíg, sé staðsetning þess gamla til vandræða.“


Stígar fyrir fólk og náttúru

Þær stöllur segja að stígarnir séu bæði fyrir fólk og náttúru og því sé mikilvægt að átta sig á því að undirlagið á þessum svæðum sé margbreytilegt og þoli sjaldan mikinn ágang. „Með góðum stíg má fyrirbyggja landeyðingu og rof og tryggja að hægt verði að njóta svæðisins áfram. Hönnun stíganna tekur mið af göngumanninum en við reynum að hafa þarfir fleiri hópa í huga eins og hlaupara og hjólreiðamanna. Það eru sérstakir hjólastígar á svæðinu sem henta þeim gestum betur. Mikilvægast er að fólk haldi sig inni á stígnum, hvort sem það eru göngumenn, hlauparar eða hjólreiðamenn,“ segir Ágústa.

Aðspurðar hver sé þeirra uppáhalds stígur gera þær greinarmun á uppáhalds stígnum og síðan hvar sé skemmtilegast að labba og sjá fallegasta útsýnið.

„Fyrir mér er góður stígur til dæmis aðreinin frá Adrenalíngarðinum hjá Nesjavöllum sem var mikið vandræðasvæði. Stígurinn lá í lægsta punkti sem er ekki gott upp á vatnsflaum að gera, en okkur tókst að drena með hinum ýmsu aðferðum og hefur hann haldist góður síðan. Fallegt svæði væri síðan e.t.v. á leiðinni upp á Vörðu-Skeggja þar sem við löguðum bratta brekku sumarið 2023 en þar er stórbrotið útsýni,“ segir Ágústa.

Kristrún segist eiga erfitt með að gera upp á milli svæða en langar að nefna hluta af fræðslustígnum, hringleið á Nesjavöllum. „Leiðin er ansi fjölbreytt og mér þykir hlutar hennar tilkomumeiri en aðrir. Þá sérstaklega við Nesjalaugar og Köldulaugagil. Það er ýmist hægt að ganga hringinn allan, um 9 km og upplifað ansi fjölbreytt landslag á stuttum kafla eða stytta sér leið að þessum svæðum,“ segir Kristrún.

Þá bætir hún við að hægt sé að leggja bílnum á bílastæði við Konungsbrún og ganga þaðan niður grýttan jeppaslóða yfir að Nesjalaugum sem sé afar fallegt háhitasvæði og enn innar yfir í Köldulaugagil. „Þar er ég að hugsa um svæðið frekar en stíginn sjálfan, þó hann sé ansi fínn á milli þessara tveggja svæða þá er almennt ekki gaman að ganga eftir bílaslóðum. Svarið við spurningunni er því breytilegt eftir því hvort um stígana sjálfa ræðir eða svæðið sem gengið er um.“

Ágústa hefur starfað hjá okkur í þrjú sumar og sumarið í ár var fjórða sumar Kristrúnar. En hvað er það við starfið sem gerir það að verkum að þær vilja vera hér ár eftir ár?

Útivera og andrúmsloftið, að ógleymdu mötuneytinu. Félagsskapurinn er góður og landið fallegt. Að því sögðu höfum við brennandi áhuga á stígagerðinni sjálfri og verðum færari með hverju sumri,“ segir Kristrún.

„Það er gott að finna fyrir því að maður er að afkasta einhverju áþreifanlegu og mikilvægu. Í vinnunni felst útivera, líkamsrækt, félagsskapur, fagurfræði, hugvit og praktík,“ segir Ágústa að lokum.