Straumhvörf Orkuveitunnar á Arctic Circle

21. okt 2024

Orkuveitan

Orkuveitan tók þátt í Arctic Circle ráðstefnunni í Hörpu í ár og kynnti tækifæri og áskoranir orkuskipta.

Arctic Circle þingið er eitt af stærstu alþjóðlegu samkomum heims sem fjallar um málefni norðurslóða. Þingið sækja sérfræðinga, leiðtogar, vísindafólk, umhverfissérfræðingar og aðrir fulltrúa frá ólíkum geirum og löndum, til að ræða þau mál sem snerta svæði norðurslóða. Í ár lagði Orkuveitan mikla áherslu á að kynna framtíðarsýn sína fyrir hreinni orku og sjálfbærni í samræmi við þau orkuskipti sem eru framundan.

Orkuveitan var með kynningarbás sem gestir þingsins gátu heimsótt og fengið upplýsingar um starfsemi fyrirtækisins og dótturfélaganna. Þar gafst gestum einnig tækifæri til að fræðast um hvernig Orkuveitan hefur verið leiðandi á sviði umhverfis- og orkumála á Íslandi, ásamt því að kynna sér þær nýjungar sem fyrirtækið vinnur að í tengslum við sjálfbærni og græna orkukosti.

Auk þess að vera með kynningarbás stóð Orkuveitan fyrir sérstakri málstofu með pallborðsumræðum þar sem fjallað var um tækifærin sem liggja í orkuskiptum framtíðarinnar. Málstofan bar yfirskriftina „Clear Opportunities: The Shift that Lies Ahead“. Þar tóku fulltrúar Orkuveitunnar til máls ásamt öðrum sérfræðingum á sviði orku- og loftslagsmála og ræddu um þau mikilvægu skref sem nauðsynleg eru að taka til að stuðla að breytingum í orkunotkun, loftslagsmálum og umhverfisvernd. Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri Orkuveitunnar, opnaði málstofuna með erindi um sögu Orkuveitunnar og hvernig hún hefur verið frumkvöðull í að nýta auðlindir landsins græna orkuframleiðslu, ásamt því að ræða þau tækifæri sem felast í orkuskiptunum sem við stöndum frammi fyrir.

Í pallborðsumræðunum sem fylgdu á eftir voru rædd enn frekar þau tækifæri sem felast í orkuskiptunum, eða öllu heldur straumhvörfunum. En "straumhvörfin" nær betur að fanga þá byltingu og margfeldisáhrif sem við Íslendingar getum uppskorið. Straumhvörfin snúa ekki aðeins að því skipta jarðefnaeldsneyti út fyrir sjálfbæra orkugjafa, heldur að skapa afleiddar afurðir, ný viðskiptatækifæri og bætta orkunýtingu. Þannig verða til ný fyrirtæki og störf sem auka hagvöxt og samkeppnishæfni okkar sem þjóðar.

Þátttakendur pallborðsumræðanna voru Hera Grímsdóttir, framkvæmdastýra Rannsókna og nýsköpunar hjá Orkuveitunni, Edda Sif Pind Aradóttir, framkvæmdastýra Carbfix, Helga Kristín Jóhannsdóttir, deildarstjóri Jarðhitagarðs hjá Orku náttúrunnar, Hjalti Páll Ingólfsson, forstöðumaður GEORG jarðvarmaklasans, og Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Þátttakendur pallborðsumræðanna lögðu jafnframt áherslu á mikilvægi nýsköpunar í orkumálum, sem og hlutverk fyrirtækja eins og Orkuveitunnar í að leiða þessar breytingar.

Til viðbótar við kynningarbásinn og málstofu á þinginu var holutopphús staðsett fyrir utan Hörpu sem gestum og gangandi bauðst að heimsækja og læra enn meira um Carbfix og aðferð þeirra við niðurdælingu á CO2. Holutopphúsið, sem hefur verið lykilatriði í jarðhitavinnslu Orkuveitunnar, var hannað af hinum framsækna arkitekt og hugsuði Einari Þorsteini Ásgeirssyni, sem átti einnig aðkomu að hönnun glersins í Hörpu. Kórinn Kliður var svo með einstakan tónlistarviðburð inni í holutopphúsinu á upphafsdegi Arctic Circle og tók þar nokkur falleg lög fyrir gesti og gangandi.

Orkuveitan er afar þakklát fyrir að hafa fengið þetta tækifæri til að taka þátt í Arctic Circle ráðstefnunni. Þátttakan er mikilvægur hluti af því að kynna framtíðarsýn fyrirtækisins á sviði hreinnar orku og sjálfbærni, sem er lykilatriði í að bregðast við þeim áskorunum sem heimurinn stendur frammi fyrir í orkumálum. Arctic Circle er góður vettvangur til að efla samstarf og skiptast á hugmyndum um þau orkuskipti sem eru nauðsynleg til að byggja upp sjálfbærari og grænni framtíð.