Stýrihópur um niðurlagningaráætlun

13. des 2022

Orkuveitan

Til að efla upplýsingagjöf og samráð um framtíð Elliðaárdals hefur Orkuveita Reykjavíkur komið á fót stýrihópi með það hlutverk að hafa umsjón með niðurlagningaráætlun Elliðaárvirkjunar. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, fer fyrir hópnum en auk hans skipa hópinn þau Ólöf Örvarsdóttir, sviðsstjóri Umhverfis- og skipulagssviðs Reykjavíkurborgar, Elín Smáradóttir, yfirlögfræðingur OR, Hólmfríður Sigurðardóttir umhverfisstýra Orkuveitunnar og formenn íbúaráðanna sitt hvoru megin Elliðaárdalsins. Það eru þau Sara Björg Sigurðardóttir og Þorkell Heiðarsson. Þorkell var einmitt formaður stýrihóps á vegum borgarinnar sem fjallaði um Elliðaárdal eftir varanlega tæmingu Árbæjarlóns haustið 2020.

Umhverfi til fyrra horfs sem kostur er

Vatnalög gera þá kröfu að Orkustofnun sé skilað svokallaðri niðurlagningaráætlun þegar rekstri raforkuvers er hætt. Í henni skal gerð grein fyrir því hvernig umhverfi er fært eins og kostur er til fyrra horfs hvernig verkið verði framkvæmt. Orkustofnun getur sett þau skilyrði fyrir leyfi sem eru nauðsynleg til að koma í veg fyrir hættu eða tjón fyrir einstaklinga og almenning.

Auk nágranna, annarra íbúa og Orkustofnunar snertir endurheimt náttúrugæða í Elliðaárdal eftir aldarlanga rafmagnsvinnslu margvíslega opinbera aðila. Má þar nefna stofnanir minjaverndar, skipulags, umhverfis, náttúrufræða og veiðimála.

Stýrihópurinn hefur hafið störf og miðar samstarf OR og Reykjavíkurborgar á vettvangi hans að því að sem best samræmi og samfella verði í vinnu að niðurlagningaráætlun Rafstöðvarinnar við Elliðaár og breytingum á skipulagsáætlunum og að íbúum verði haldið upplýstum um framhaldið.

Elliðaárstöð í uppbyggingu

Síðustu ár hefur Orkuveita Reykjavíkur staðið fyrir uppbyggingu nýs áfangastaðar í Elliðaárdal, Elliðaárstöð. Hjarta hennar er við Rafstöðina sjálfa og þar hefur verið sett upp leiksvæði fyrir börn og unnið er að því að gera húsakostinn þar almenningi aðgengilegan.