15. nóv 2022
OrkuveitanSamkvæmt áfangaskýrslu Jóhannesar Sturlaugssonar líffræðings um áhrif þess að inntakslón Rafstöðvarinnar við Elliðaár var tæmt varanlega hefur hrygning laxa í kvíslinni sem nú rennur um lónstæðið eflst talsvert. Vísbendingar í þessa veru sáust strax sumarið 2021, fyrsta árið eftir tæmingu, og rannsóknir hans í sumar staðfesta þetta.
„Rannsóknarniðurstöður 2022 vitna um mikla velgengni laxins í Árbæjarkvísl í kjölfar þess að sá einkennisfiskur Elliðaánna endurheimti gönguleið sína þar sem og hrygningar- og uppeldissvæði, í kjölfar þess að vatnsmiðlun fyrir tilstilli manngerðs Árbæjarlóns var aflögð,“ segir í skýrslu Laxfiska, rannsóknarfyrirtækis Jóhannesar.
Ákveðið var að vakta sérstaklega velferð fiska í ánum og fugla í kringum þær eftir að lónið var tæmt varanlega haustið 2020. Í um hálfa öld fram að því, meðan á raforkuvinnslu úr ánum stóð, hafði lónið verið fyllt að hausti og tæmt að vori. Þeim sveiflum fylgdi einnig gjarna grugg sem dregur úr súrefnismagni í vatninu sem ekki er gott fyrir lífríki ánna.
Áhyggjur komu einnig fram við tæmingu lónsins að með því drægi úr fuglalífi í dalnum. Arnór Sigfússon, fuglafræðingur hjá Verkís, hefur vaktað þennan þátt lífríkis dalsins síðustu ár. Í skýrslu hans vegna ársins 2021 kom fram að álftapar, sem gjarna hélt sig á inntakslóninu, kom það ár upp tveimur ungum og að fuglafjöldi við Árbæjarstíflu ráðist nokkuð af brauðgjöfum vegfarenda. Í bráðabirgðaskýrslu hans vegna sumarsins 2022 kemur fram að álftapar með einn unga hafi sést við stífluna í júní en var þar ekki í ágúst en kann að hafa verið á Elliðavatni á þeim tíma. Ekki sjást miklar breytingar í fuglatalningu milli ára, segir í skýrslunni, en alltaf megi búast við einhverjum mun.
Von er á ýtarlegri skýrslum frá vísindamönnunum síðar í vetur.
Hér geta áhugasöm náð í áfangaskýrslur þeirra Jóhannesar og Arnórs: