29. apr 2020
OrkuveitanGuðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfis- og auðlindaráðherra hefur skipað starfshóp til að tryggja að niðurdæling koltvíoxíðs (CO2) með Carbfix aðferðinni falli að Evrópureglum um kolefnisföngun og -geymslu og komi jafnframt til frádráttar í viðskiptakerfi Evrópusambandsins (ESB) með losunarheimildir. Starfshópurinn mun vinna drög að frumvarpi þess efnis.
Þá ræddu Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Ursula Von der Leyen, forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, um Carbfix aðferðina á fundi sínum þann 6. apríl sl.
Á síðasta ári var undirrituð viljayfirlýsing stjórnvalda, fulltrúa frá stóriðjunni og Orkuveitu Reykjavíkur um að kannað yrði til hlítar hvort Carbfix aðferðin geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til að draga úr losun CO2 frá stóriðju á Íslandi.
Frumvarpinu sem starfshópnum er falið að semja er ætlað að tryggja að niðurdæling CO2 með Carbfix aðferðinni falli að reglum ESB og komi til frádráttar losunar CO2 í viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (ETS), en stóriðjufyrirtæki á Íslandi falla öll undir ETS-kerfið. Þannig myndu þau fyrirtæki sem nýta sér Carbfix aðferðina geta sparað tilsvarandi kostnað sem hlýst af kaupum losunarheimilda innan kerfisins.
Starfshópinn skipa:
Carbfix aðferðin felst í að fanga og farga CO2 úr útblæstri í stað þess að sleppa því út í andrúmsloftið. Vatni með uppleystu CO2 - nokkurs konar sódavatni - er dælt ofan í berglög þar sem náttúrleg ferli taka við og umbreyta uppleysta koltvíoxíðinu varanlega í grjót. Orkuveita Reykjavíkur hefur frá árinu 2007 leitt þróun aðferðarinnar í samstarfi við Háskóla Íslands og erlendar rannsókna- og vísindastofnanir. Orka náttúrunnar hefur beitt Carbfix aðferðinni til að draga stórlega úr losun CO2 og H2S frá Hellisheiðarvirkjun frá árinu 2014 og er aðferðin nú talin sannreynd sem hagkvæm og umhverfisvæn lausn við varanlega förgun þessara lofttegunda. Carbfix hefur frá janúar 2020 verið rekið sem sjálfstætt dótturfélag Orkuveitu Reykjavíkur.