Umhverfisborgir fengu steinrunnið íslenskt koltvíoxíð í verðlaun

22. okt 2019

Orkuveitan

Niðursneiddir borkjarnar af Hellisheiði þar sem glittir í steinrunnið koltvíoxíð CarbFix verkefnis Orkuveitu Reykjavíkur og Orku náttúrunnar prýddu verðlaunagripi Bloomberg sem fulltrúar sjö borga fengu fyrir framtak þeirra í loftslagsmálum. Verðlaunin voru veitt á svokölluðum C40 borgarstjórafundi sem fram fór í Kaupmannahöfn. Á fundinum afhenti Michael Bloomberg, viðskiptajöfur og fyrrverandi borgarstjóri New York, fulltrúum sjö borga verðlaunagripi fyrir framúrskarandi loftslagsverkefni.

Borkjarni á Bloomberg verðlaunum

Verðlaunagripurinn þetta árið var hannaður af alþjóðlegu hönnunarstofunni Bjarke Ingels Group. Hann er skífa úr borkjarna af Hellisheiði þar sem Orkuveita Reykjavíkur og Orka náttúrunnar binda koltvíoxíð úr jarðhitagufu sem grjót í iðrum jarðar. Borkjarninn er basaltberg þar sem má sjá glitta í steinrunnið koltvíoxíð úr CarbFix-verkefninu. Skífan stendur á hóli úr endurunnu ryðfríu stáli sem táknar borinn sem notaður er til að sækja þetta sönnunargagn um kolefnisbindinguna við Hellisheiðarvirkjun Orku náttúrunnar.

Borgirnar sjö sem fengu viðurkenningu á C40 borgarstjórafundinum voru;

  • Medellín í Kólumbíu fyrir skipulega gróðursetningu til að fegra borgina og kolefnisjafna.
  • Kolkata á Indlandi fyrir að skipta yfir í rafmagnsstrætóa í stórum stíl.
  • Sól í Suður Kóreu fyrir að setja upp sólarsellur við heimili og opinberar stofnanir.
  • Akkra í Gana fyrir átak í sorphirðu.
  • London í Bretlandi fyrir frumkvæði í að leyfa bara visthæfa bíla í miðborginni.
  • San Fransiskó í Bandaríkjunum fyrir að bjóð íbúum umhverfisvænt rafmagn á samkeppnishæfu verði.
  • Gúansjú í Kína fyrir fyrir að reka eingöngu rafmagnsstrætóa í borginni með tilheyrandi innviðum fyrir rafvæddar samgöngur.

Ljósmyndir: Bloomberg Philanthropies