24. okt 2022
OrkuveitanVaraforseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Maroš Šefčovič, kom í heimsókn í Hellisheiðarvirkjun í síðustu viku til að kynna sér jarðhitanýtingu Orku náttúrunnar og ekki síður kolefnisbindingu Carbfix, en þróunarverkefni sprotafyrirtækisins hafa notið dyggilegs stuðnings vísinda- og nýsköpunarsjóða sambandsins.
Hvorttveggja Carbfix og ON Power eru dótturfyrirtæki Orkuveitu Reykjavíkur og tóku Bjarni Bjarnason, forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur, og Dr. Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir, stjórnandi hjá Carbfix, á móti Šefčovič. Í föruneyti hans voru meðal annarra Lucie Samcová-Hall Allen, sendiherra ESB á Íslandi, og Kristján Andri Stefánsson, sendiherra Íslands hjá ESB.
Tveggja daga heimsókn Šefčovič til Íslands er í boði Þórdísar Kolbrúnar Reykfjörð Gylfadóttur utanríkisráðherra. Hann mun einnig hitta forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannesson, Katrínu Jakobsdóttur forsætisráðherra og Guðlaug Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra. Meðal markmiða með heimsókninni til Íslands er að undirstrika vilja Evrópusambandsins til að halda áfram nánu samstarfi við Ísland.
Ísland og ESB geta átt samstarf um ýmis málefni, svo sem að miðla þekkingu sem tengist orku og loftslagi. Til dæmis hefur Ísland mikla sérþekkingu á jarðvarmavirkjun.
„Fyrirtækið Carbfix er brautryðjandi í nýrri tækni við hraða steinefnavinnslu neðanjarðar - að breyta CO2 í stein. Þetta er nýstárleg lausn sem mun hjálpa okkur að ná markmiðum okkar í loftslagsmálum,“ var meðal ummæla Šefčovič í ræðu sinni í Háskóla Íslands.
„Við erum þakklát fyrir tækifærið til að kynna starf okkar á Hellisheiði í dag. Við hlökkum til áframhaldandi og frekari þátttöku og samtals við framkvæmdastjórn Evrópusambandsins til að koma fram nýsköpunarverkefnum sem geta leitt til umtalsverðrar minnkunar á losun. Við stefnum að því að stækka reyndu tækni okkar, metnaður sem nýtur mikillar stuðnings nýsköpunarsjóðs ESB,“ segir Sandra Ósk Snæbjörnsdóttir.