29. jan 2025
OrkuveitanÁ vef Heimildarinnar í morgun birtist frétt um ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar þess efnis að framlengja og hækka lánalínu til Carbfix, eins af dótturfélögum fyrirtækisins. Ákveðins misskilnings gætir í fréttinni og því vill formaður stjórnar Orkuveitunnar, Gylfi Magnússon, koma eftirfarandi á framfæri:
Orkuveitan vinnur að þeirri stefnu sem mótuð var og staðfest af eigendum að fá meðeigendur að verkefnum Carbfix. Ákvörðun stjórnar Orkuveitunnar um að tryggja Carbfix rekstrarfé í formi láns þar til samningsgerð lýkur er mikilvægur þáttur í framfylgd samþykktar stjórnar og eigenda Orkuveitunnar.
Í umsögn rýnihóps borgarráðs um stofnun Carbfix hf. árið 2022 segir:
„Rýnihópur borgarráðs telur ekki raunhæft að fjármagna þennan vöxt verkefna Carbfix úr sjóðum borgarinnar eða Orkuveitu Reykjavíkur og að skýr rök séu fyrir því að takmarka áhættu samstæðunnar með því að stofna Carbfix hf.“ (feitletrun Orkuveitan)
Þá segir ennfremur:
„Rýnihópur borgarráðs telur jákvætt og mikilvægt að Carbfix-tæknin verði þrautreynd og fjármögnuð til innlendra og alþjóðlegra verkefna sem lið í loftslagsaðgerðum Reykjavíkurborgar, Íslands og heimsins.“
Formaður stjórnar Orkuveitunnar leggur því áherslu á að umrædd lánalína sé fyrst og fremst ætluð til þess að fjármagna grunnstarfsemi Carbfix en ekki einstök verkefni líkt og rýnihópurinn lagði áherslu á. Þá leggur hann áherslu á að viðræður við væntanlega viðskiptavini og fjárfesta að einstaka verkefnum Carbfix gangi vel.
Það hafi aldrei staðið til að fjármagna fyrirhuguð stór fjárfestingarverkefni Carbfix með sjóðum Orkuveitunnar. Mikilvægt sé að tryggja rekstur fyrirtækisins enda hafi Carbfix-tæknin skilað Orkuveitunni og eigendum þess mun meiri ávinningi en umrædd lánalína. Ádráttur á lánalínu Orkuveitunnar til Carbfix standi nú í 4,4 milljörðum króna sem sé 1,7% af eigin fé Orkuveitunnar um áramótin 2023-2024 og hefur eigið fé aukist síðan þá.