Veiðisumarið hófst með vorveiði barna

16. jún 2021

Orkuveitan

Líf og fjör hefur verið við Elliðaárnar sl. föstudaga þegar Stangveiðifélag Reykjavíkur og Orkuveita Reykjavíkur hafa staðið fyrir vorveiði fyrir börn. Veiðin fór fram á silungasvæðinu rétt neðan við Elliðavatnsstífluna. Í ár tóku þrír hópar þátt; frá Klettaskóla, Styrktarfélaginu Ás og Einstökum börnum. Töluverður fjöldi tekur þátt árlega en um 60 manns reyndu sig við silunginn í ár, bæði börn og aðstandendur.

Fötluðum börnum hefur verið boðið í vorveiði í Elliðaánum frá því árið 2009 og hefur þessi viðburður fest sig vel í sessi. SVFR og OR láta í té veiðidaga, útvega veiðarfæri og nesti og aðstoða við veiðina. Veiðin gengur alltaf vel og flest börnin fara heim með fisk, sum fleiri en einn, og gleðin skín úr hverju andliti.

Fyrstu laxarnir mættu í Elliðaárnar fyrir nokkrum dögum en laxveiðin hefst 20. júní. Meðal annars hefur sést til laxa á Breiðunni og í vikunni gær veiddist fyrsti laxinn en það var veiðimaður á silungasvæðinu. Það var þó ekki barn í vorveiði OR og SVFR sem var svo heppið að krækja í hann heldur veiðimaður sem var við silungsveiðar við Ármótin.