Viljayfirlýsing um að „Gas í grjót“ nýtist stóriðjunni

18. jún 2019

Orkuveitan

Stóriðjan á Íslandi ætlar að kanna til hlítar hvort það sé fýsilegt að binda kolefnisútstreymi hennar í berglögum með CarbFix-aðferðinni sem þróuð hefur verið við Hellisheiðarvirkjun. Að forgöngu stjórnvalda var viljayfirlýsing þessa efnis undirrituð í dag.

Samstarfsaðilar Orkuveitu Reykjavíkur við kolefnisbindinguna hafa verið Orka náttúrunnar, Háskóli Íslands og erlendar vísindastofnanir og til starfsins hafa meðal annars fengist styrkir úr rannsókna- og þróunaráætlunum Evrópusambandsins.

Smelltu hér til að kynna þér Carbfix betur.

Fjórir ráðherrar undirrita

Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, og fulltrúar Orkuveitu Reykjavíkur, Elkem, Fjarðaáls, ISAL, Norðuráls og PCC Bakka undirrituðu í dag viljayfirlýsingu um kolefnishreinsun og -bindingu.

Samkvæmt viljayfirlýsingunni verður kannað til hlítar hvort aðferð sem kölluð er „CarbFix“ geti orðið raunhæfur kostur, bæði tæknilega og fjárhagslega, til þess að draga úr losun koldíoxíðs (CO2) frá stóriðju á Íslandi. Þá munu fyrirtækin hvert um sig leita leiða til að verða kolefnishlutlaus árið 2040.

Orkuveita Reykjavíkur hefur þróað „CarbFix“ aðferðina í samstarfi við Háskóla Íslands og erlenda aðila frá árinu 2007. Aðferðin felst í því að CO2 er fangað úr jarðhitagufu, gasið leyst upp í vatni undir þrýstingi og vatninu dælt niður á 500-800 m dýpi í basaltjarðlög, þar sem CO2 binst varanlega í berggrunninum í formi steinda. Orka Náttúrunnar, dótturfélag OR, hefur nú rekið lofthreinsistöð og niðurdælingu við Hellisheiðarvirkjun samfellt í 5 ár með góðum árangri.

Bjarni Bjarnason forstjóri Orkuveitu Reykjavíkur:

CarbFix aðferðin er eitt besta dæmi sem við eigum um að vísindi borgi sig. Lofthreinsistöðin við Hellisheiðarvirkjun hefur nú verið rekin um 5 ára skeið og hún hreinsar 75% af öllu brennisteinsvetni sem frá virkjuninni kemur og um þriðjung af koltvísýringi og breytir í grjót. Sparnaður miðað við hefðbundnar lausnir nemur milljörðum króna. Stefnt er að sporlausum rekstri háhitavirkjana Orku náttúrunnar innan nokkurra ára. Það er Orkuveitu Reykjavíkur sönn ánægja að vinna með stóriðjunni á Íslandi að hreinsun koltvísýrings frá starfseminni, ef frekari þróun á CarbFix lausninni gæti orðið til þess.