Viljum skila dalnum sem allra best af okkur

8. des 2020

Orkuveitan

„Í mínum huga eru skyldur Orkuveitur Reykjavíkur sem eiganda Elliðaárstöðvar ljósar þegar rekstur hennar hefur verið aflagður. Okkur ber að þakka fyrir 100 ára nytjar Elliðaánna, taka til eftir okkur og sleppa Elliðaánum lausum. Hluti af því að heiðra þessa merku sögu er að opna sögu- og tæknisýningu í Elliðaárstöð á afmælisárinu.“

Þetta segir Bjarni Bjarnason forstjóri OR en Elliðaárstöð, sem er eitt merkilegasta mannvirki okkar Íslendinga hvað tæknisögu og byggingarlist varðar, var vígð árið 1921.

„Elliðaárstöðin markaði upphaf rafvæðingar í Reykjavík og breytti niðdimmri nótt í nýtan dag ef svo má segja. Íbúar í vaxandi höfuðborg gátu nú lokað hlóðaeldhúsum, reykmettuðum og heilsuspillandi kytrum, og eldað matinn á rafhellu við rafljós. Hlutverki stöðvarinnar er nú lokið.“

Bjarni segir að þegar Orkuveitan gekk í gegnum miklar fjárhagslegar þrengingar í kjölfar hrunsins hafi verið horft til þess að heiðra sögu veitnanna og Elliðaárstöðvarinnar þegar fjárhagurinn leyfði og nú sé komið að því. Í ársbyrjun 2019 var haldin hugmyndasamkeppni um sögu- og tæknisýningu á rafstöðvartorfunni í Elliðaárdal. Stjórn Orkuveitunnar sé mjög áhugasöm um verkefnið. Sýningin á að vera hófstillt og höfða til fólks á öllum aldri. Jafnframt er uppbyggingu hennar áfangaskipt þannig að hægt verði að leyfa sýningunni að þróast og sjá hvernig til tekst.

Vagga Orkuveitu Reykjavíkur

„Við tölum oft um Elliðaárdalinn sem vöggu Orkuveitunnar. Þangað má rekja upphaf Vatnsveitunnar, sem er elsti þátturinn í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur, en hún var stofnuð árið 1909. Vatnið var tekið úr Elliðaánum til að byrja með, áður en vatnstaka hófst í Gvendarbrunnum í Heiðmörk. Upphaf Rafmagnsveitu Reykjavíkur markast svo af opnun Elliðaárstöðvar árið 1921. Þriðji meginþátturinn í veitustarfseminni er svo Hitaveitan en jarðhitasvæði er í Elliðaárdalnum, neðan Árbæjarstíflu á bakkanum Breiðholtsmegin, sem enn er í fullri notkun. Sigurtillagan féll vel að hugmyndum okkar sem eru fyrst og fremst að fræða almenning. Ekki bara um það sem snýr að veitunum heldur einnig að náttúrunni, jarðfræðinni, líffræðinni og Elliðaánum sjálfum. Við viljum að Elliðaárstöð geti orðið eins konar hlið að dalnum þar sem saga Orkuveitu Reykjavíkur og Elliðaárdalsins tvinnast svo skemmtilega saman. Við ætlum að fræða skólakrakka með skipulögðum hætti, og öll þau sem eru áhugasöm.“

Fyrir ofan Árbæjarstíflu var inntakslón fyrir Elliðaárstöð sem þjónaði þeim tilgangi að halda vatnshæð stöðugri og tryggja lágmarksmiðlun vatns til að svara álagi vélanna í stöðinni hverju sinni.

„Tilgangur lónsins er nú horfinn. Orkuveitan telur sér ekki heimilt að trufla náttúrulegt rennsli Elliðaánna nú þegar rekstur Elliðaárstöðvar hefur verið lagður af enda eru heimildir í starfsleyfi, lögum og reglugerðum sem um rekstur stöðvarinnar fjalla bundnar því að stöðin sé í rekstri.

Orkuveita Reykjavíkur gerir sér grein fyrir því að um tæmingu lónsins eru deildar meiningar enda má gera ráð fyrir því að mörgu fólki sem býr á bökkum þess og útivistarfólki almennt sé eftirsjá í því.“

Reykjavíkurborg hefur nú stofnað stýrihóp með fulltrúum íbúa í Árbæ og Breiðholti, Reykjavíkurborgar og Orkuveitu Reykjavíkur. Hópurinn hefur það hlutverk að leggja fram tillögur um hvernig best sé að skila dalnum nú þegar lónið hefur verið tæmt og vinnslu rafmagns hætt. Hópnum ber að horfa til Elliðaárdals í heild sinni og í víðu samhengi með tilliti til verndunar laxastofnsins í ánum, en einnig til fuglalífs og annarrar náttúru og mannlífs.

„Metnaður Orkuveitu Reykjavíkur stendur til þess að ganga vel frá í dalnum og þakka fyrir 100 ára nytjar ánna. Við munum því vinna af áhuga með stýrihópnum og bíðum spennt eftir tillögum hans. Hópnum er gert að skila af sér fyrir lok maímánaðar 2021.

Við hlökkum mikið til að opna sýninguna í Elliðaárstöðinni á 100 ára afmælinu á næsta ári. Grunnveitunum okkar; rafmagnsveitu, hitaveitu, vatnsveitu og fráveitu má líkja við æðakerfi borgarinnar, ósýnileg kerfi sem tengja öll húsin saman. Þau eru á ýmsan hátt undirstaða heilbrigði og vellíðunar íbúanna. Gagnaveitunni með ljósleiðarann mætti þá líkja við taugakerfið sem upplýsingar berast um á ógnarhraða. Við segjum stundum að veiturnar okkar séu grunnur að lífsgæðum, sem íbúarnir búa við og byggja ofan á. Það er líka sameiginlegt veitunum að íbúarnir taka yfirleitt ekki eftir þjónustunni nema hún bregðist. Okkur langar að fræða fólk á öllum aldri, en ekki síst unga fólkið okkar, um það flókna veitukerfi sem sér húsunum og íbúunum fyrir þeirri grunnþjónustu sem við teljum nú sjálfsagðan hluta af daglegu lífi.“

Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna inni á www.ellidaarstod.is