VOR – Nýr Vísindasjóður Orkuveitu Reykjavíkur

11. maí 2022

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur auglýsir eftir umsóknum um styrki úr nýstofnuðum Vísindasjóði OR, sem gengur undir nafninu VOR.
Til ráðstöfunar eru um 100 milljónir króna á þessu fyrsta starfsári sjóðsins sem varið verður til verkefna sem tengjast með
einhverjum hætti þeim Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna sem fyrirtækin í samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur hafa í forgangi í starfseminni.

Forgangsmarkmið OR

Eftir vinnustofur með starfsfólki og ytri hagsmunaaðilum ákvað stjórn Orkuveitu Reykjavíkur að leggja áherslu á fimm af Heimsmarkmiðunum 17 og öll tengjast þau kjarnastarfsemi fyrirtækisins eins og þau eru skilgreind í eigendastefnu OR. Nú eru þau þessi:

  • Jafnrétti kynjanna
    Jafnrétti kynjanna verði tryggt og völd allra kvenna og stúlkna efld
  • Hreint vatn og hreinlætisaðstaða
    Tryggja aðgengi að og sjálfbæra nýtingu, allra á hreinu vatni og salernisaðstöðu
  • Sjálfbær orka
    Tryggja öllum aðgang að öruggri og sjálfbærri orku á viðráðanlegu verði
  • Ábyrg neysla og framleiðsla
    Sjálfbær neyslu- og framleiðslumynstur verði tryggð
  • Aðgerðir í loftslagsmálum
    Grípa til bráðra aðgerða gegn loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra

Umsóknarfrestur til og með 10. júní

Umsóknarfrestur um styrk úr sjóðnum er til og með 10. júní næstkomandi.
Styrkir verða veittir í tveimur flokkum. Annars vegar eru verkefnastyrkir þar sem horft verður til þess að hver styrkur skipti viðkomandi vísindarannsókn máli.
Því er viðbúið að veglegir styrkir geti fengist til verðugra verkefna.
Hinsvegar eru lægri námsmannastyrkir til meistara- og doktorsnema. Úthlutunarreglur sjóðsins eru aðgengilegar ásamt rafrænum umsóknarformum á vef Orkuveitu Reykjavíkur á slóðinni www.or.is/vor.

Ákvörðun um styrki er tekin af stjórn VORs að fengnu áliti fagráðs sérfræðinga innan eða utan Orkuveitu Reykjavíkur. Í stjórninni sitja Brynhildur Davíðsdóttir formaður stjórnar OR, Bjarni Bjarnason forstjóri og Kristín Ingólfsdóttir, fyrrverandi rektor Háskóla Íslands. Umsjón með sjóðnum hefur Halldóra Guðmundsdóttir, sérfræðingur í rannsóknarverkefnum á Rannsókna- og nýsköpunarsviði OR.