Útveggir Vesturhúss gallaðir frá upphafi

23. mar 2021

Orkuveitan
Ljósmynd: Atli Már Hafsteinsson

Niðurstaða dómskvaddra matsmanna á rakaskemmdum á hluta skrifstofuhúsnæðis Orkuveitu Reykjavíkur við Bæjarháls er að skemmdirnar megi rekja til ágalla í hönnun útveggja, framkvæmd og eftirliti við uppsetningu þeirra. Útboðsferli vegna endurbóta stendur yfir.

Árið 2015 varð raka- og mygluskemmda vart í svokölluðu Vesturhúsi að Bæjarhálsi 1. Árið 2017 lá fyrir að skemmdir á húsinu væru mjög alvarlegar og var talið að skipta þyrfti um alla útveggi hússins. OR óskaði þá eftir dómskvaðningu matsmannanna til að fá óháð sérfræðimat á orsökum skemmdanna, áætluðum kostnaði við úrbætur og til að byggja á mat á réttarstöðu fyrirtækisins. Tveir matsmenn tóku til starfa í apríl 2018, þeir Tryggvi Jakobsson og Eyþór Rafn Þórhallsson. Þeir hafa nú skilað matsgerðinni sem telur ríflega 200 síður auk viðauka. Matsgerðina er að finna hér að neðan í heild sinni.

Við lestur matsgerðarinnar sést greinilega að margt brást við hönnun og uppsetningu útveggja hússins. Eftirliti með framkvæmdinni var einnig ábótavant auk þess sem prófanir á útveggjunum voru ekki gerðar þó þess hafi verið krafist.

Helstu niðurstöður matsgerðar eru eftirfarandi:

  • Rakaskemmdir og mygla hafa fundist í öllum útveggjum Vesturhúss.
  • Frágangur útveggja er ekki í samræmi við reglur eða vönduð og fagleg vinnubrögð.
  • Núverandi veggir verða ekki lagfærðir.
  • Að mati matsmanna er viðgerð fólgin í að skipta um útveggi.

Bjarni Bjarnason forstjóri OR:

„Matsgerðin sýnir okkur að útveggirnir eru haldnir alvarlegum fæðingargöllum þó þeir hafi ekki endanlega komið fram fyrr en 2015. Útveggjunum verður ekki bjargað. Sagan nær langt aftur í tímann og margt hefur brugðist. Þetta er tjón sem Orkuveitan ræður fjárhagslega við en við skoðum nú hvort hægt verði að sækja einhverjar bætur. Við gerðum tilraun til þess að gera við útveggina en niðurstaða matsmanna sýnir að það var rétt ákvörðun að hætta viðgerðum.“

Ráðgert er að fjarlægja útveggi Vesturhúss og byggja nýja í staðinn. Yfirferð á tilboðum sem bárust í útboði á endurbótunum stendur nú yfir og er vonast til þess að niðurstaða liggi fyrir á næstu vikum.

Sjá matsgerð á Vesturhúsi Bæjarháls 1

Sjá upplýsingar um endurbyggingu á Vesturhúsi