Traust afkoma OR

24. ágú 2017

Orkuveitan

Lækkandi rekstrarkostnaður hjá Orkuveitu Reykjavíkur á sama tíma og ýmis ytri skilyrði voru hagstæð skópu fyrirtækinu talsverðan hagnað á fyrri helmingi ársins. Samkvæmt árshlutareikningi sem stjórn samþykkti í dag var afkoma fyrirtækisins jákvæð sem nam 7,3 milljörðum króna fyrstu sex mánuði ársins 2017.

Festa í rekstri og álverð hækkar

Innan samræðu Orkuveitu Reykjavíkur eru, auk móðurfélagsins, Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Kostnaður við rekstur fyrirtækjanna lækkaði frá fyrra ári um 152 milljónir króna. Þrátt fyrir samningsbundnar launahækkanir þá vógu þar á móti minni kostnaður við raforkuflutning og raforkukaup til endursölu. Það síðarnefnda má meðal annars rekja til aukinnar framleiðslu ON í Hellisheiðarvirkjun eftir að Hverahlíðarlögn var tekin í notkun.
Tekjur samstæðunnar jukust þrátt fyrir að verð á ýmissi veituþjónustu hafi verið lækkað í byrjun árs. Hækkandi álverð, sem er viðmiðun í raforkusölu til stórnotenda, hefur þar áhrif og aukin umsvif í samfélaginu. Reiknað verðmæti langtímasamninga á raforku til álbræðslu hafa einnig vaxið með hækkuðu álverði. Hækkunin reiknast samstæðunni til tekna og skýrir það hagnað tímabilsins að verulegu leiti, eða sem nemur 4,9 milljörðum af 7,3 milljarða króna hagnaði.

Rekstur OR F2 2017

Samhliða árshlutauppgjörum hefur Orkuveita Reykjavíkur gefið út lykiltölur fjármála. Á vefnum er einnig að finna árshluta- og ársreikninga OR og dótturfyrirtækja fyrir síðustu ár.

Bjarni Bjarnason, forstjóri

Þessi niðurstaða er góð fyrir fyrirtækið, eigendur þess og viðskiptavini. Fjárhagsstaða Orkuveitu Reykjavíkur heldur áfram að styrkjast og sú sparnaðarmenning sem byggð hefur verið upp stuðlar að því að fólk njóti grunnþjónustu fyrirtækjanna við sem lægstu verði.
OR siglir þó ekki lygnan sjó. Hluta afkomubatans í þessu uppgjöri má rekja til þátta sem við stýrum ekki á borð við álverð. Sá hagnaður er því fugl í skógi en ekki í hendi. Þá er að koma á daginn að við eigum fyrir höndum dýrar aðgerðir vegna þeirra alvarlegu rakaskemmda sem fyrst komu í ljós árið 2015 í hluta skrifstofuhúsnæðis fyrirtækisins. Á næstunni þurfum við að eiga gott samtal um hvað skynsamlegast er að gera í þeim efnum.

OR árshlutareikningur samstæðu F2 2017

Rekstraryfirlit stjórnenda
Fjárhæðir í milljónum króna F2 2013 F2 2014 F2 2015 F2 2016 F2 2017
Rekstrartekjur 20.111 18.234 20.479 20.955 21.612
Rekstrarkostnaður (6.679) (6.379) (7.443) (8.215) (8.063)
þ.a. orkukaup og flutningur (2.668) (2.530) (3.256) (3.133) (2.898)
EBITDA 13.432 11.855 13.036 12.741 13.549
Afskriftir (4.496) (4.331) (4.799) (5.303) (4.706)
Rekstrarhagnaður EBIT 8.936 7.524 8.237 7.438 8.842
Afkoma tímabilsins 3.736 3.831 2.260 5.029 7.311
Sjóðstreymi:
Innleystar vaxtatekjur 81 359 252 57 124
Greidd vaxtagjöld (2.473) (2.560) (2.215) (1.890) (2.013)
Handbært fé frá rekstri 10.059 10.953 11.042 11.774 12.652
Veltufé frá rekstri 11.174 9.533 10.501 10.617 11.707