Vöxtur í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur

28. ágú 2023

Orkuveitan
Sævar Freyr Þráinsson forstjóri OR

Árshlutauppgjör samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur vegna fyrri hluta ársins ber með sér viðvarandi talsverðar fjárfestingar, hækkandi fjármagnskostnað og þá hefur álverð lækkað verulega frá fyrra ári. Tekjur hafa einnig vaxið og veltufé frá rekstrinum jókst samanborið við fyrri helming ársins 2022 og nam hagnaður tímabilsins 1,5 milljörðum króna.

Árshlutareikningur samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur, sem nær yfir Veitur, Orku náttúrunnar, Ljósleiðarann og Carbfix auk móðurfélagsins, var samþykktur af stjórn OR í dag.

Talsverðar fjárfestingar – lánsfjármögnun gengur vel

Alls námu fjárfestingar samstæðunnar 10,3 milljarði króna á fyrstu sex mánuðum ársins. Það er svipað og á sama tímabili á árinu 2022. Fjárfestingar Veitna eru umfangsmestar.

Auk vaxandi fjármagnskostnaðar sjást í árshlutauppgjörinu neikvæð áhrif lægra álverðs. Meðalverð tímabilsins hefur lækkað um fjórðung milli ára. Auk samdráttar í tekjum er breyting á verðmæti langtímasamninga um raforkusölu tengda álverði einnig færð til gjalda undir fjármagnskostnað. Nemur reiknuð gjaldfærsla nú 2,6 ma.kr. Áhrif kjarasamninga, sem komu til framkvæmda á fyrri hluta ársins samhliða fjölgun starfsfólks, hefur áhrif til hækkunar á launakostnaði. Fjölgun starfsfólks er meðal annars vegna uppbyggingar á rekstri Carbfix, en mikil eftirspurn er víða um heim eftir því að hagnýta aðferð fyrirtækisins til kolefnisbindingar.

Veltufé frá rekstri jókst á milli ára úr 13,6 ma.kr. á fyrri hluta ársins 2022 í 13,9 ma.kr. nú í ár.

Lánsfjármögnun ársins hefur gengið samkvæmt áætlun og hefur OR aflað 10 ma.kr. með útgáfu grænna skuldabréfa. Stór hluti fjármögnunar á seinni hluta ársins mun byggja á erlendri lántöku. Á næstu misserum er gert ráð fyrir fjármögnun með útgáfu og sölu nýs hlutafjár í Carbfix og Ljósleiðaranum.

Sævar Freyr Þráinsson, forstjóri

„Það eru afskaplega spennandi tímar fram undan í starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og fyrirtækjanna allra í samstæðunni. Stjórn OR og stjórnendur í allri samstæðunni vinna nú að nýrri heildarstefnu, sem verður leiðarvísir okkar til framtíðar. Á sama tíma er grunnþjónusta veitufyrirtækjanna Veitna og Ljósleiðarans við heimili og fyrirtæki traust. Orkuveitan og Orka náttúrunnar eru að skoða áhugaverða kosti til vaxandi orkuframleiðslu úr jarðhita og vindi til að styðja við orkuskiptin, þróun atvinnulífsins og vöxt samfélagsins.

Núna, tæpum áratug eftir fyrstu hraðhleðslustöðina, er forysta ON í þjónustu við rafbílaeigendur enn ótvíræð. Veitur eru að rafvæða hafnir því það skiptir miklu hvernig okkur tekst til í loftslagsmálum. Til viðbótar við frumkvöðlastarfið innan Carbfix, þá er samstæða nú komin í þann forystuflokk íslenskra fyrirtækja að hafa fengið loftslagsmarkmið sín staðfest af Science Based Targets initiative. Þau markmið sem við höfum sett okkur þýða að við munum gera vaxandi kröfur til okkar sjálfra og til okkar birgja um minna kolefnisspor vöru þeirra eða þjónustu.“