Fitch hækkar lánshæfiseinkunn OR

10. feb 2017

Orkuveitan
Deildartunguhver

Alþjóðlega matsfyrirtækið Fitch Ratings hefur hækkað lánshæfismat Orkuveitu Reykjavíkur (OR) úr BB- í BB. Horfur eru áfram metnar stöðugar.

Skýringarnar á hækkaðri einkunn Fitch koma fram í meðfylgjandi tilkynningu fyrirtækisins og eru af tvennum toga; góður árangur í rekstri fyrirtækisins og hagstæð þróun í umhverfi þess. Fyrst nefnir matsfyrirtækið lækkaðar skuldir en einnig frammistöðu OR við að framfylgja Planinu, þar sem árangur hefur verið umfram markmið, og viðvarandi stuðning eigenda við fyrirtækið. Þeir ytri þættir sem áhrif hafa á bætta einkunn er bætt efnahagsástand á Íslandi og sterkt gengi krónunnar, sem komi OR til góða.

Þau atriði sem Fitch tiltekur að ráði stöðugum horfum í lánshæfi OR er traust lagaumgjörð rekstursins en á móti komi markaðsáhætta og að ennþá séu skuldir OR talsverðar.

Ingvar Stefánsson, framkvæmdastjóri fjármála OR

Það er ánægjulegt að sjá þessa viðurkenningu á því að vel gengur. Reksturinn er í góðu horfi og hagstæð ytri skilyrði skila sér í bættri fjárhagsstöðu. Um áramótin, þegar við lækkuðum verð á hluta veituþjónustunnar, fóru viðskiptavinir að njóta ábata af bættri stöðu OR og dótturfyrirtækjanna.

Fitch Ratings Credit Update - OR - Feb 2017