Fjárhagur OR styrkist áfram

20. okt 2017

Orkuveitan

Fjárhagur Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna Veitna, Orku náttúrunnar og Gagnaveitu Reykjavíkur heldur áfram að styrkjast á næstu árum samkvæmt fjárhagsspá sem samþykkt var af stjórn OR í dag. Afkoma mun batna þannig að gert er ráð fyrir að tekjuskattur til ríkissjóðs á árunum 2018 til 2023 nemi tæplega 21 milljarði króna og að eigendum OR – Reykjavíkurborg, Akraneskaupstað og Borgarbyggð – verði greiddur um 15 milljarða króna arður á árabilinu.

Verð fyrir rafmagnsdreifingu Veitna mun lækka á næstu vikum en almennt er gert ráð fyrir að verð á þjónustu fyrirtækjanna fylgi annarri verðlagsþróun í landinu á spátímabilinu. Möguleikar á lækkun á gjaldskrám verða kannaðir.

Fjárhagsspá samstæðu OR 2018 og fimm ára spá 2019-2023

Góð tök á rekstri – rekstrarkostnaður lækkar

Rekstrarkostnaður OR samstæðunnar hefur lítið vaxið síðustu ár og lækkað að raunvirði. Gert er ráð fyrir að rekstrarkostnaður milli áranna 2017 og 2018 lækki í krónum talið. Þetta hefur gert fyrirtækinu kleift að greiða niður lán. Áfram verður haldið á þeirri braut þannig að gert er ráð fyrir að afborganir lána umfram nýja fjármögnun nemi liðlega 40 milljörðum króna frá 2017 til 2023.

Hér má sjá spá um sjóðstreymi samstæðunnar frá upphafi yfirstandandi árs til ársloka 2023.

Sjóðstreymi samstæðu OR 2017-2023

Endurnýjun veitukerfa

Veigamestu fjárfestingarnar eru hjá Veitum. Vatnsveitur, fráveitur, rafveitur og hitaveitur fyrirtækisins þjóna frá tæpum helmingi upp í tvo þriðju hluta landsmanna. Endurnýjun burðarlagna hita- og vatnsveitna standa yfir og eru þar Deildartunguæð í Borgarfirði og Reykjaæðar innan Reykjavíkur veigamestar. Þá þarf að endurnýja búnað í rafdreifikerfinu og eldri hluta fráveitunnar. Átaki Veitna við uppbyggingu nýrra fráveitna er að mestu lokið þannig að nú er skólp hætt að flæða um fjölda útrása í fjörur á Akranesi, í Borgarnesi og á Kjalarnesi.

Fjárfest í þekkingu

Ýmsar viðhaldsfjárfestingar eru áformaðar hjá Orku náttúrunnar sem rekur virkjanirnar á Nesjavöllum, Hellisheiði og í Andakíl. Þar á meðal eru borholur og þróunarverkefni tengd niðurdælingu koltvísýrings og brennisteinsvetnis, þekkt sem Gas í grjót.

Jarðhitagarður ON, atvinnuþróunarsvæði í grennd við Hellisheiðarvirkjun, verður byggður frekar upp á tímabili spárinnar. Þá er boltinn núna hjá OR og ON innan Íslenska djúpborunarverkefnisins. Áformað er að bora djúpa jarðgufuholu á tímabili spárinnar. Mikil þekking hefur fengist af fyrri djúpborunum, við Kröfluvirkjun Landsvirkjunar og Reykjanesvirkjun HS Orku.

Hluti samstæðuáætlunar Reykjavíkurborgar

Við gerð þessarar fjárhagsspár OR halda fyrirtækin innan samstæðunnar áfram á braut stefnumiðaðrar spágerðar (Beyond budgeting). Í aðferðinni felst að hefðbundin áætlanagerð er einfölduð og afkomuspár eru tíðari. Hún felur í sér að stjórnendur og starfsfólk bera aukna ábyrgð á fjármálum og daglegum rekstri og styðjast þar við skráða stefnu fyrirtækjanna og skýr markmið.

Fjárhagsspá OR 2017 og langtímaspá 2018-2022 fara til umfjöllunar hjá Reykjavíkurborg sem hluti af fjárhagsáætlun samstæðu borgarinnar.