Ljósleiðarinn kominn í kauphöll

27. maí 2022

Orkuveitan
Erling Freyr Guðmundsson framkvæmdastjóri Ljósleiðarans.
© Silja Y. Eyþórsdóttir

Í dag, föstudaginn 27. maí 2022, eru tekin til viðskipta á Aðalmarkað Nasdaq Iceland skuldabréf Ljósleiðarans ehf. að fenginni staðfestingu fjármálaeftirlits Seðlabanka Íslands á lýsingu fyrir Ljósleiðarann, það er útgefandalýsingu og verðbréfalýsingu. Verðbréfin sem tekin eru til viðskipta eru græn skuldabréf í skuldabréfaflokknum LL 010641 GB sem hlotið hefur viðurkenningu óháðs aðila sem „dökkgrænn.“

Aukið öryggi – aukin samkeppni

Á meðal þeirra verkefna sem Ljósleiðarinn fjármagnar með útgáfu þessa græna skuldabréfaflokks er yfirstandandi lagning ljósleiðara til heimila, fyrirtækja og stofnana á Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri, í Reykjanesbæ, Vogum og undirbúningur er hafinn í Grindavík. Þá er vaxandi þungi í tengingu nýbygginga í sveitarfélögum sem Ljósleiðarinn hefur þegar tengt.

Þá er unnið að þeirri framtíðarsýn fyrirtækisins að aukin samkeppni á fjarskiptamarkaði náist með nýjum landshring fjarskipta. Ljósleiðarinn leitar samstarfs séu önnur innviðafyrirtæki að leggja nýja strengi eða lagnir en hefur einnig frumkvæði að lagnaleiðum og býður þá öðrum aðild að lagningunni. Með því dregur úr umhverfisáhrifum framkvæmdanna og öðru raski vegna þeirra auk þess sem hagkvæmni er meiri en ef samstarfsins nyti ekki. Fjárfestingarnar stuðla að því markmiði stjórnvalda að Ísland verði fulltengt ljósleiðara.

Ísland í fremstu röð

Samkvæmt nýjum niðurstöðum árlegrar úttektar hins alþjóðlega Fibre to the Home Council trónir Ísland ennþá efst á lista Evrópuríkja yfir þau lönd þar sem flest heimili nýta sér ljósleiðaratengingu, eða 78%. Þetta er þriðja árið í röð sem Ísland er efst á listanum. Ljósleiðarinn á stóran þátt í þeirri stöðu. Nýr landshringur er hinsvegar forsenda þess að Ljósleiðarinn geti látið til sín taka í ljósleiðaratengingu þar sem hennar nýtur ekki við í dag. Það er helst í þéttbýlisstöðum á Vestur- og Austurlandi.

Erling Freyr Guðmundsson, framkvæmdastjóri Ljósleiðarans:

Það er stór dagur hjá okkur að skrá græn skuldabréf Ljósleiðarans á almennan markað. Opinber skráning bréfanna veitir okkur aðhald í þeim mikilvægu verkefnum sem við stöndum í, hvort tveggja almennum rekstri og þeirri nauðsynlegu uppbyggingu fyrir íslenskt upplýsingatæknisamfélag sem Ljósleiðarinn hefur forystu um.

Ég held að það sé ekki á neinn hallað þegar Ljósleiðarinn er nefndur sem helsta hreyfiaflið í uppbyggingu öflugra innviða fjarskipta á síðustu áratugum. Þar er ljósleiðaratenging heimila, fyrirtækja og stofnana stærst. Hún nýttist svo sannarlega þegar stór hluti landsmanna var bundinn við vinnu heima við síðustu misserin og not farsímafyrirtækja af Ljósleiðaranum hafa líka gerbreytt þjónustu þeirra. Innleiðing farsímafyrirtækja á 5G tækninni reynir enn frekar á ljósleiðaranet landsins.

Í útboðum okkar á grænum skuldabréfum fyrirtækisins síðustu mánuði höfum við náð því markmiði að lækka fjármagnskostnað við okkar metnaðarfullu og mikilvægu uppbyggingarverkefni. Enn frekari hagkvæmni þeirra höfum við tryggt með samningum við fjarskiptafyrirtæki, nú síðast við Farice sem er einmitt þessa dagana að styrkja tengingu Íslands við umheiminn með nýjum sæstreng til Írlands.

Við lofuðum kaupendum þessara skuldabréfa að skrá þau á opinn markað og við það höfum við staðið í dag.

Skuldabréfaflokkurinn

Ljósleiðarinn ehf., kt. 691206-3780, Bæjarhálsi 1, 110 Reykjavík, Íslandi, birtir nú lýsingu dagsetta 19. maí 2022, sem samanstendur af tveimur viðfestum skjölum; verðbréfalýsingu og útgefandalýsingu. Þau hafa verið staðfest af Fjármálaeftirliti Seðlabanka Íslands og eru birt í tengslum við umsókn um töku skuldabréfaflokksins LL 010641 GB til viðskipta á Aðalmarkað Nasdaq Iceland hf.

Skuldabréfaflokkurinn, sem tekinn er til viðskipta í dag, er til 20 ára, verðtryggður á föstum vöxtum með jöfnum greiðslum á sex mánaða fresti. Hann fellur undir græna fjármögnunar umgjörð sem hefur hlotið óháða vottun frá Cicero. Nánari upplýsingar um skuldabréfaflokkinn og lýsinguna má finna á vef Ljósleiðarans, á síðunni www.ljosleidarinn.is/fjarmal

Landsbankinn hf. hafði umsjón með sölu skuldabréfaflokksins og töku til viðskipta.

Tilgangur Ljósleiðarans ehf., sem er í eigu Orkuveitu Reykjavíkur, er rekstur fjarskipta- og gagnaflutningskerfis og skyld starfsemi.