Ágætur hagnaður en aukinn fjármagnskostnaður

22. ágú 2022

Orkuveitan
Bjarni Bjarnason forstjóri OR.
© Atli Már Hafsteinsson

Fimm milljarða króna hagnaður varð af starfsemi samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur fyrstu sex mánuði ársins. Ýmis verðbólguáhrif sjást í samandregnum árshlutareikningi samstæðu OR, sem stjórn samþykkti í dag. Innan samstæðunnar eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar, Ljósleiðarinn og Carbfix.

Picture1.png
Rekstur OR á fyrri hluta árs 2018-2022.

Tekjur flestra starfsþátta samstæðunnar jukust milli ára. Álverð var áfram í hærra lagi sé litið til lengri tíma og hækkaði tekjur af raforkusölu til stóriðju og á almennum markaði jókst notkun á rafmagni og köldu vatni en lítillega dró úr heitavatnsnotkun milli ára. Tekjur af nýjum heimtengingum drógust saman í samræmi við lækkun á gjaldskrá Veitna fyrir þjónustuna.

Viðburðir á fyrri hluta árs

Ofsaveðrið sem gekk yfir síðla febrúarmánaðar olli nokkru tjóni, einkum á raflínum og ýmsum rafbúnaði í veitu- og virkjanarekstri. Þá stóð mjög lágt í lónum vatnsaflsvirkjana og verð á aðkeyptu rafmagni til endursölu á almennum markaði hækkaði tímabundið. Orka náttúrunnar fékk íslensku ánægjuvogina í febrúar, þriðja árið í röð. Í maí hlutu græn skuldabréf Ljósleiðarans skráningu á Aðalmarkað Nasdaq Iceland og um mitt ár var tilkynnt um samning fyrirtækisins við utanríkisráðuneytið um afnot Ljósleiðarans af tveimur af átta ljósleiðaraþráðum í ljósleiðarastreng Atlantshafsbandalagsins (NATO streng), sem liggur í hring um landið og til Vestfjarða.

Um sama leyti var tilkynnt um 16 milljarða króna styrk úr Nýsköpunarsjóði Evrópusambandsins til Carbfix til uppbyggingar á móttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal við Straumsvík.

Langvinnu dómsmáli vegna uppgjörs gjaldmiðlasamninga frá árinu 2008 lauk á fyrri hluta ársins með því að OR var gert að greiða þrotabúi Glitnis liðlega þrjá milljarða króna. Niðurstaðan var færð til gjalda á árinu 2021 en greidd á yfirstandandi ári sem dregur úr handbæru fé frá rekstri á fyrstu sex mánuðum ársins.

Verðbólguáhrif

Margvísleg verðbólguáhrif má sjá í hækkun rekstrarkostnaðar á fyrri hluta ársins. Aukin verðbólga leiðir til hærri fjármagnskostnaðar og þá hefur hækkun á innfluttum aðföngum og verktakakostnaði aukið viðhaldskostnað og leitt til hærri fjárfestinga.

Rekstrarhagnaður samstæðunnar (EBIT) á fyrstu sex mánuðum ársins eykst um 1 milljarð króna frá sama tímabili 2021. Hins vegar leiðir hærri fjármagnskostnaður og breytingar á stærðum tengdum álverði til þess að hagnaður félagsins lækkar um 3,8 milljarða króna milli ára, í 5 milljarða.

Bjarni Bjarnason, forstjóri OR

Þetta eru svolítið óvenjulegir tímar í rekstri. Yfir standa miklar fjárfestingar, einkum í veitukerfunum, og það er mikill þrýstingur á að halda þeim áfram, ekki síst vegna áherslna sveitarfélaga og ríkisins á aukið framboð íbúðarhúsnæðis. Af þessari ástæðu er verktakamarkaður spenntur og lægstu tilboð í verk hjá okkur stundum tugum prósenta yfir kostnaðaráætlunum. Á sama tíma hafa vextir hækkað mjög skarpt sem ætti, að öðru jöfnu, að letja okkur til fjárfestinga.

Við hjá Orkuveitunni munum áfram kappkosta að taka þátt í nauðsynlegri uppbyggingu. Þótt það sé vissulega dýrara nú en oft áður er fjárhagur Orkuveitunnar traustur. Þess vegna höfum við burði til að styðja við öfluga húsnæðisuppbyggingu og orkuskipti í samgöngum, enda er loftslagsváin ekki á förum.