Orkuveita Reykjavíkur uppfærir grænan skuldabréfaramma í grænan fjármögnunarramma

22. nóv 2021

Orkuveitan

Orkuveita Reykjavíkur (OR; Reykjavík Energy) hefur uppfært ramma grænnar fjármögnunar samstæðunnar þannig að nýr rammi nær yfir allan efnahagsreikninginn, ekki bara tiltekin verkefni. Jafnframt nær ramminn nú til allrar fjármögnunar, ekki eingöngu skuldabréfaútgáfu.

Ramminn hefur hlotið óháða vottun með einkunnina dökkgrænn.

Orkuveita Reykjavíkur reið á vaðið í útgáfu grænna skuldabréfa hér á landi árið 2019 og hefur hún reynst einkar árangursrík. Tilgangurinn var að afla fyrirtækinu hagstæðari fjármögnunar á markaði en þeim fjárfestum fjölgar stöðugt sem gera kröfur um að fjármögnun þeirra styðji við umhverfisvæn og samfélagslega ábyrg verkefni. Sá skuldabréfarammi gerði ráð fyrir sérstöku matsferli þar sem hvert og eitt fjármagnað verkefni undirgengist mat á hæfi þess til grænnar fjármögnunar.

Í uppfærslunni nú er hinsvegar, að teknu tilliti til eðlis starfsemi Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfélaganna allra, efnahagsreikningur samstæðunnar settur í heilu lagi undir rammann, ekki bara einstök fjárfestingarverkefni innan samstæðunnar. Ásamt því mun ramminn einnig ná yfir alla fjármögnun samstæðunnar, ekki einungis skuldabréfaútgáfu heldur einnig bankalán og fleiri gerðir lána til að fjármagna græna eignir.

Til að það sé hægt þarf samstæðan í heild og öll starfsemi innan hennar að standast strangar umhverfiskröfur. Skemmst er frá því að segja að CICERO (Center for International Climate Research) gaf græna fjármögnunarrammanum hæstu einkunn og er ramminn metinn dökkgrænn. Ramminn hefur einnig hlotið hæstu einkunn fyrir umgjörð hans.

Reykjavík Energy (OR) - Green Financing Framework ( á ensku)

Reykjavik Energy (OR) - Green Financing Framework - Second Opinion - CICERO ( á ensku)