Græn skuldabréf OR skráð á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf

4. júl 2019

Orkuveitan

Í dag, 4. júlí 2019, voru græn skuldabréf Orkuveitu Reykjavíkur skráð á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf. Orkuveita Reykjavíkur er jafnframt fyrst íslenskra fyrirtækja til að skrá græn skuldabréf á markað Nasdaq Iceland fyrir sjálfbær skuldabréf. Bjarni Bjarnason, forstjóri OR, hringdi bjöllu Kauphallarinnar við þau tímamót.

Skuldabréfaflokkurinn er til 36 ára og ber fasta verðtryggða vexti. Flokkurinn er jafngreiðsluflokkur með greiðslum höfuðstóls og vaxta á sex mánaða fresti og lokagjalddaga 18. febrúar 2055.

Bréfin eru gefin út til að fjármagna fjölda grænna verkefna hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjunum, Veitum og Orku náttúrunnar. Þeirra á meðal eru metnaðarfull kolefnisbindingaverkefni, snjallvæðing veitukerfa, efling fráveitna, orkuvinnsla úr endurnýjanlegum orkugjöfum og verkefni tengd vatnsvernd.

Skipulega hefur verið unnið að umhverfismálum hjá Orkuveitu Reykjavíkur og dótturfyrirtækjum um langa hríð. OR samstæðan hefur sett sér það markmið að minnka kolefnisspor starfseminnar um 60% fyrir árið 2030. Frá árinu 2005 hefur fyrirtækið notið óháðrar vottunar samkvæmt ISO 14001 umhverfisstaðlinum.

Bjarni Bjarnason hringir bjöllunni í Kauphöll