Prýðileg rekstrarniðurstaða OR eftir níu mánuði

20. nóv 2017

Orkuveitan

Rekstrarkostnaður Orkuveitu Reykjavíkur fyrstu níu mánuði ársins 2017 var lægri en sömu mánuði í fyrra. Ytri rekstrarskilyrði hafa um margt verið hagstæð það sem af er ári og nam hagnaður fyrstu níu mánaðanna 10,5 milljörðum króna. Árshlutareikningur samstæðu OR fyrir fyrstu níu mánuði ársins 2017 var samþykktur af stjórn í dag.

OR árshlutareikningur samstæðu F3 2017

Rekstrarkostnaður fer lækkandi

Innan samstæðu Orkuveitu Reykjavíkur eru, auk móðurfélagsins; Veitur, Orka náttúrunnar og Gagnaveita Reykjavíkur. Samanlagður rekstrarkostnaður fyrirtækjanna lækkaði frá fyrra ári. Í fjárhagsspá fyrir næsta ár, sem birt var 20. október síðastliðinn, er gert ráð fyrir að rekstrarkostnaður haldi áfram að lækka. Þetta skilar sér til viðskiptavina því á þessu ári hefur gjaldskrá fyrir kalt vatn lækkað og gjaldskrá fyrir dreifingu rafmagns lækkað tvisvar.

Álverð hefur hækkað

Verulegur hluti raforkusölu ON, dótturfyrirtækis OR, er tengdur álverði, sem hefur hækkað nokkuð frá áramótum. Þetta hefur skilað auknum tekjum á árinu. Samningar um raforkusölu til álbræðslu eru langtímasamningar og er áætlaður ábati á öllum samningstímanum færður til tekna í árshlutareikningnum. Þess vegna endurspeglar hin góða rekstrarniðurstaða tímabilsins ekki bara tekjuaukningu frá áramótum heldur einnig væntan tekjuauka, sem framtíðin mun leiða í ljós hvort skilar sér.

Lykiltölur fjármála á vef OR

Samhliða árshlutauppgjörum hefur Orkuveita Reykjavíkur gefið út lykiltölur fjármála. Á vefnum er einnig að finna árshluta- og ársreikninga OR og dótturfyrirtækja fyrir síðustu ár.

Rekstraryfirlit stjórnenda
Fjárhæðir í milljónum króna F3 2013 F3 2014 F3 2015 F3 2016 F3 2017
Rekstrartekjur 28.806 26.960 28.768 29.921 31.310
Rekstrarkostnaður (9.794) (9.195) (10.535) (11.785) (11.744)
þ.a. orkukaup og flutningur (3.902) (3.644) (4.645) (4.555) (4.238)
EBITDA 19.012 17.766 18.234 18.136 19.566
Afskriftir (6.251) (6.510) (7.172) (7.584) (7.051)
Rekstrarhagnaður (EBIT) 12.762 11.256 11.061 10.551 12.515
Tekjuskattur tímabilsins (620) (2.257) 0 (3.421) (3.593)
Afkoma tímabilsins 5.972 7.879 3.093 9.368 10.512
Sjóðstreymi
Innborgaðar vaxtatekjur 176 442 377 146 278
Greidd vaxtagjöld 3.448 3.420 3.181 2.600 2.990
Handbært fé frá rekstri 16.934 17.885 18.126 17.305 18.625
Veltufé frá rekstri 14.973 12.677 14.734 14.853 15.080
Fjárfesting rekstrarfjármuna (2.196) (3.565) (7.323) (8.422) (9.567)
Afborganir vaxtaberandi skulda (20.561) (13.913) (11.977) (12.681) (13.835)